Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 15:59:28 (5114)

2003-03-14 15:59:28# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur svarað ákaflega vel þeim spurningum sem hv. þm. hefur borið hér fram og reyndar er kannski verið að fara í geitarhús að leita ullar þegar ég er spurð um þessi mál, því ég er hvorki umhverfisráðherra né settur umhverfisráðherra hvað varðar fskj. III. En það sem hæstv. settur umhvrh. hefur látið koma fram er það sem segir í fskj. III, í fyrsta tölul., en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Vatnsborð Norðlingaöldulóns verði lækkað þannig að allt lónið verði utan friðlandsins og óheimilt er að reisa varnargarða innan friðlands Þjórsárvera.``

Þetta er niðurstaðan. Óheimilt er að fara inn í friðlandið. Það er hins vegar ákveðið svigrúm utan friðlandsins, það held ég að sé alveg ljóst samkvæmt þessum úrskurði, og þannig hefur hæstv. settur umhvrh. túlkað úrskurðinn.

Ég tek líka undir það sem kemur fram í nál. sem umsögn meiri hluta umhvn. og skýrir þetta enn frekar, en hæstv. settur umhvrh. hefur sagt það að svigrúmið sé nokkuð en friðlandið sé algjörlega verndað og ekki verði raskað neitt við því. Og það er stóra málið sem ég held að allir hljóti að gleðjast yfir og þess vegna hefur þessi úrskurður hæstv. setts umhvrh. vakið svo mikla gleði meðal þjóðarinnar.

En mér fannst hv. þm. kannski fara nokkuð langt þegar hún taldi að einhver ráðherra hefði haft það í hyggju að fara ekki að lögum. Auðvitað hefur aldrei komið til greina af hálfu nokkurs ráðherra að fara ekki að lögum hvað þetta varðar. Á því held ég að sé enginn vafi.

En af því að hv. þm. talaði um rammaáætlunina og lét það koma fram fyrr í umræðunni þegar hún fjallaði um jarðhitavirkjanirnar á Reykjanesi og Nesjavöllum að rétt væri að bíða eftir niðurstöðu rammaáætlunar hvað þær varðar, þá er það rétt að þær eru á meðal þeirra mörgu jarðhitakosta sem rammaáætlun fjallar um. Langflestir þessara kosta eiga hins vegar langt í að komast á framkvæmdastig. Í dag er unnið að rannsóknum á þremur jarðhitasvæðum, það eru Hellisheiði, Trölladyngja og Þeistareykir auk þeirra sem áður voru nefndir. Hins vegar er ljóst að mörg ár munu líða uns unnt verður að taka þessar virkjanir í notkun og það sama á við um flesta þá virkjunarkosti sem fjallað er um í rammaáætluninni.

Þess vegna er ekki hægt að segja það raunhæfa leið að mínu mati að bíða eftir niðurstöðu rammaáætlunar þegar við erum að tala um virkjunarkosti sem þarf að taka í notkun eftir tvö eða þrjú ár. Það er það sem um er að ræða í þessu tilfelli. Þá segir hv. þm. eflaust að það eigi bara að bíða eftir því að þetta liggi allt saman fyrir. Hún getur alveg verið þeirrar skoðunar að svo sé en ég er ekki sammála því. Ég tel að þegar við erum með álitlega fjárfestingarkosti fyrir framan okkur og hvað varðar þetta fyrirtæki sem við fjöllum um nú, Norðurál, sem fyrst var fjallað um hér á hv. Alþingi árið 1997, og þá voru samþykkt lög um starfsemi álversins á Grundartanga, þá vil ég halda því fram að það fyrirtæki hafi komið, séð og sigrað. Því það hefur fengið mjög sterka og jákvæða ímynd í samfélagi okkar og m.a.s. hafa hv. þingmenn Vinstri grænna haldið því fram í umræðunni að þarna sé mikill áhugi á því að vakta umhverfið og að standa sig í umhverfismálum.

Þess vegna finnst mér sem iðnrh. ekki frambærilegt að segja við þá aðila sem vilja stækka fyrirtækið að þeir verði bara að bíða vegna þess að við séum ekki búin að ljúka við rammaáætlun, vegna þess að það frv. sem hér er til umfjöllunar, til breytingar á lögum um raforkuver, þeir kostir sem bjóðast eru ekki erfiðir fyrir umhverfið miðað við það að Norðlingaölduveita fer í þann farveg sem úrskurðurinn kveður á um. Og hinir kostirnir, t.d. í sambandi við Svartsengi, eru bara betri nýting og Reykjanesið reyndar 80 megavatta virkjun. En ég hef ekki heyrt hv. þingmenn tala gegn því og heldur ekki gegn Nesjavöllum. Eins og ég sagði í gær fannst mér Vinstri grænir fá þarna gott tækifæri til þess að sýna að þeir væru ekki einstrengingslegir, þeir horfðu á hvert tilfelli fyrir sig. Og þó að ég eigi kannski ekki að hafa mikla skoðun á því þá hefðu þeir að mínu mati fengið þarna tækifæri til þess að vera jákvæðir í garð stórframkvæmda og virkjunarframkvæmda, af því að þetta er þannig mál sem við erum að fjalla hér um.

Hv. þm. var með fleiri spurningar sem ég tel að hv. formaður nefndarinnar hafi svarað. Ef það er fleira sem hún hefði viljað koma inn á þá getur hún eflaust gert það í andsvari. En þetta voru aðalatriðin af því sem ég vildi láta koma fram.