Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 16:14:45 (5120)

2003-03-14 16:14:45# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[16:14]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta mál auðvitað allt saman litað af því óðagoti og flaustri sem mér finnst einkenna störf ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum öllum og virkjunarframkvæmdum.

Sannleikurinn er auðvitað sá að ef menn væru að vinna hér af einhverri skynsemi og ef menn í alvöru vildu ná sátt um þessi mál væri tekinn miklu lengri tími í þetta allt saman. Þá gæti hæstv. iðnrh. staðið hér og sagt: Við skulum ná sáttum í alvöru --- eins og var sagt þegar farið var út í þessa rammaáætlunarvinnu --- og við skulum bara bíða eftir fyrsta áfanga verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar. Við skulum vera minnug þess, herra forseti, að fjórir virkjunarkostir í vatnsafli sem eru taldir í bráðabirgðamati verkefnisstjórnar rammaáætlunar virðast vera þeir langsamlega hættulegustu og ófýsilegustu út frá umhverfissjónarmiðum. Og hverjir eru þessir fjórir kostir? Þetta eru Jökulsá á Fjöllum, Kárahnjúkavirkjun, Jökulsá í Fljótsdal og Norðlingaölduveita. Þetta eru þeir fjórir kostir sem koma verst út í bráðabirgðamati rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar.

Ef við ætluðum að gera þetta af skynsemi mundum við að sjálfsögðu hægja á, við hefðum hægt á fyrir löngu síðan, sest yfir þessa rammaáætlunarvinnu, gefið henni forgang og heimilað því ágæta fólki sem þar er að vinna að vinna án tímapressu og síðan hefði útkoman, sem er að vænta í maí eða júní, getað orðið leiðbeining fyrir hæstv. ríkisstjórn, ljós í myrkrinu sem þjóðin hefði mögulega getað náð sáttum um. Þess í stað kýs hæstv. ríkisstjórn að setja undir sig hausinn, eða skella sér á magann eins og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson segir gjarnan, og renna út í þetta allt saman í blindni í bullandi ósátt við helming þjóðarinnar eða meira. Þetta eru vinnubrögð sem eru ekki til fyrirmyndar og flaustrið á eftir að koma okkur í koll.