Raforkulög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 22:23:02 (5177)

2003-03-14 22:23:02# 128. lþ. 101.28 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, iðnrh. (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[22:23]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Frv. sem hér kemur til atkvæða eftir 2. umr. snýst m.a. um innleiðingu tilskipunar á sviði raforkumála. Samkeppni verði tekin upp á sviði framleiðslu og sölu á raforku en ekki í flutningi og dreifingu. Fá mál sem lögð hafa verið fyrir Alþingi hafa hlotið vandaðri undirbúning auk þess sem iðnn. hefur vandað mjög til verka í umfjöllun málsins.

Þetta mál snýst ekki um einkavæðingu raforkukerfisins og það snýst ekki um að kasta frá sér ábyrgð ríkisins á að dreifa rafmagni í strjálbýli á sambærilegu verði við það sem viðgengst í bæjum.

Ég lýsi mikilli ánægju með þá samstöðu sem ríkir hér á hv. Alþingi um að tekið skuli á hinum félagslega kostnaði. Frv. kveður á um að skipuð skuli nefnd sem starfa mun til áramóta. Hún verður skipuð fulltrúum orkufyrirtækja, neytendasamtaka, þingflokka og fleiri aðila. Hlutverk nefndarinnar verður að fjalla um fyrirkomulag flutningskerfisins og gjaldskrá fyrir flutning. Nefndinni er gefinn kostur á að koma með endurbætur á ákvæði frv. um fyrirkomulag flutningskerfisins. Auk þess fær nefndin það mikilvæga hlutverk að móta tillögur um jöfnun kostnaðar við flutning og dreifingu.