2003-03-15 01:42:58# 128. lþ. 102.20 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[25:42]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar tekið var inn í þingsköp fyrir nokkrum árum að heimila þingmönnum að veita andsvör við ræðum þingmanna var það gert til þess að gera umræðuna snarpari og gefa þingmönnum kost á að bregðast við því sem fram kom í ræðu þingmanns með fljótari og skilvirkari hætti en hafði verið mögulegt fram að því. (Gripið fram í: ... einhverjir dagar ...) Nú háttar svo til að ég bað um andsvar við ummælum í ræðu hv. þingmanns sem féllu fyrir einu dægri síðan og liðlega það þannig að það er nokkuð farið að slá í þann hluta ræðunnar sem mér fannst ástæða til að bregðast við. Ég held þó, herra forseti, að ég muni enn þá hvað það var sem mér fannst ástæða til að gera athugasemd við.

Þingmaðurinn talaði um að það frv. sem hér er til umræðu væri eitt af árásarfrumvörpunum frá ríkisstjórninni á hendur landsbyggðinni og nefndi dæmi máli sínu til sönnunar, önnur dæmi, og þar með talið frv. um breytingar á lögum um heilsugæslustöðvar þar sem ákveðið er að leggja niður stjórnir þeirra. Það var eiginlega það sem mér fannst ástæða til að bregðast við því hann taldi að í þeirri tillögu heilbrrh. væri um að ræða miðstýringu og stöðuga viðleitni ríkisins til þess að draga vald úr höndum heimamanna til ríkisins.

Ég vildi nú segja, herra forseti, að gert er ráð fyrir því að framkvæmdastjórn starfi við sjúkrahús og heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni. Þær eru skipaðar þremur mönnum sem allir eru starfsmenn viðkomandi stofnana og þessir þrír starfsmenn eru auðvitað búsettir á landsbyggðinni, eru auðvitað hluti af því fólki sem býr í þeim samfélögum sem stofnanirnar þjóna. Mér finnst ósanngjarnt að líta svo á að ríkisstarfsmenn geti ekki verið heimamenn.