Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 21:19:57 (18)

2002-10-02 21:19:57# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, KolH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[21:19]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir landsmenn. ,,Með ál á heilanum``, stóð á einu mótmælaskilti hér fyrir utan húsið í gær þegar ríflega 300 manns voru saman komnir til að mótmæla stóriðjustefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, og það með réttu því stóriðja er sannanlega ekki það bjargráð sem reynt hefur verið að telja þjóðinni trú um. Það vekur enda athygli að hagvaxtarspáin sem forsrh. er svona ljómandi ánægður með byggir ekki á því að til komi framkvæmdir í stóriðju og virkjunum sem sýnir að þjóðin kemst vel af án stóriðjuframkvæmda og hefur því frelsi til að velja atvinnustefnu sem byggir á sjálfbærri þróun og þar með á varfærnislegri nálgun við nýtingu auðlindanna í stað græðgistilburðanna sem nú eru uppi.

Alþingi hefur samþykkt heimild til iðnrh. um að Kárahnjúkavirkjun verði reist. En Alþingi hefur ekki samþykkt neitt sem lýtur að álverksmiðju á Reyðarfirði, hvorki skatta\-ívilnanirnar sem ríkisstjórnin á örugglega eftir að koma með hingað inn á borð til okkar, né nokkuð annað. Og á meðan orkusölusamningar liggja ekki fyrir er enn von um að öræfin norðan Vatnajökuls hljóti þann sess sem þeim ber, nefnilega að stofnaður verði þar alvöru þjóðgarður. Og meðan svo er ástatt mun Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gera allt sem í hennar valdi stendur til að glæða þá von og gera hana loks að veruleika.

Forsætisráðherrann fór mörgum feitum orðum um leiðtoga stjórnarandstöðunnar í ræðu sinni og fannst greinilega ekki mjög leiðinlegt að geta líkt orðunum sem formaður Samfylkingarinnar þyrfti að éta ofan í sig við kræsingar jólakattarins. En hann mætti nú kannski líta sér nær og skoða hvort ekki sé komið að því að hann eða samstarfsmenn hans í ríkisstjórn þurfi kannski að éta eitt og annað ofan í sig. Eða hvar eru efndir þeirra orða sem hann sjálfur lét falla í stefnuræðu sinni fyrir ári síðan um aðgerðir í geðheilbrigðismálum, svo bara eitthvað sé nefnt? Skyldi forsrh. sjálfur kannski þurfa að sitja að snæðingi með jólakettinum í ár?

Ef við beinum sjónum okkar að yfirlýsingum varðandi náttúruverndarmál, sem mér eru ofarlega í huga, þá er nærtækt að líta á yfirlýsingar framsóknarráðherranna um Þjórsárver. Núna, þegar til stendur að sökkva hluta þeirra undir miðlunarlón, hvar eru þá efndir þeirra orða sem Halldór Ásgrímsson lét falla á opnum hádegisverðarfundi á Hótel Borg á sínum tíma, um að ekki komi til greina að fórna Þjórsárverum? Á þeim sama fundi sagði Halldór Ásgrímsson reyndar fleira athyglisvert. Hann sagði að ekki kæmi til greina að flytja Jökulsá á Fjöllum eða eyðileggja Dettifoss vegna virkjunarframkvæmda.

Nú spyr ég: Úr því ekkert er að marka orð hans um Þjórsárver, er þá eitthvað að marka orð hans um Dettifoss? Eða hvar er nú stefna sú sem flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti í nóvember 1998? Þá hafnaði fólkið í Framsóknarflokknum að friðlýst svæði yrðu lögð undir orkumannvirki. Hvernig skyldi fólkinu í Framsóknarflokknum líða núna þegar ráðherrar flokksins hafa skrumskælt stefnu hans og hafa nú forgöngu um að skerða bæði friðlandið í Þjórsárverum og Kringilsárrana með virkjunarframkvæmdum? Forsrh. verður kannski ekki sá eini úr ríkisstjórninni sem situr til borðs með jólakettinum í ár.

Og mikil var trú samfylkingarmanna sem í vor samþykktu Kárahnjúkavirkjun í trausti þess að ekki yrði fleiri náttúruperlum fórnað á svæðinu norðan Vatnajökuls. Ég sé ekki annað en ríkisstjórnin sé að svíkja Samfylkinguna því ekki er stafkrókur um þjóðgarð á hálendinu norðan Vatnajökuls á málalista ríkisstjórnarinnar sem forsrh. var að leggja fram, ekki orð, hvorki um virkjanaþjóðgarð né reyndar Vatnajökulsþjóðgarð. Þó var Alþingi búið að samþykkja fyrirheit um að hann yrði stofnaður og umhvrh. er búin að gefa til kynna að það yrði í ár, á ári fjalla. Þessi ríkisstjórn hefur ekki uppi nokkur áform um að vernda öræfi þessa lands, ekki nokkur. Og þegar Austfirðingar horfa nú fram á þann veruleika sem blasir við þeim á hálendinu norðan Vatnajökuls, þar sem vinnuvélar í yfirstærðum rífa í sig gróið land, bylta við björgum og bora sig djúpt inn í bergið, er þá nema von að á þá komi hik þegar þeir sjá með eigin augum þennan hernað gegn landinu? Og það er ekki skrýtið þótt margir þeirra óttist að þeir séu nú búnir að láta stela frá sér auðlindinni sem fólgin hefur verið í ósnortnum víðernum hálendisins, á sama hátt og kvótinn hefur verið tekinn frá þeim.

Hæstv. forsrh. hælir ríkisstjórn sinni fyrir að gera átak í húsnæðismálum. Staðreyndin er sú að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur verið vegið mjög alvarlega að einmitt þessum málaflokki. Það er erfiðara nú að eignast húsnæði og leigja húsnæði, sérstaklega fyrir tekjulágt fólk, en það var áður en húsnæðislöggjöfinni var breytt árið 1998. Vextir á lánsfjármarkaði til þeirra sem reisa félagslegt leiguhúsnæði fyrir skjólstæðinga sína hafa verið stórhækkaðir, sem leiðir af sér minna framboð af húsnæði og hærri húsaleigu. Ríkisstjórnin hefur með gerðum sínum gert slæmt ástand enn verra og ég fullyrði að staðan í húsnæðismálum, einkum fyrir tekjulágt fólk, er nú verri en hún hefur verið um langan aldur. Það segir hins vegar sína sögu um veruleikafirringu forsrh. að hann skuli sjá sérstaka ástæðu til að hæla sér af þessum málaflokki þar sem staðan er jafnbágborin og raun ber vitni.

Herra forseti. Ágætu Íslendingar. Það verður forvitnilegt að sjá hverjir koma til með að sitja að snæðingi með jólakettinum í ár. --- Lifið heil.