Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:57:03 (87)

2002-10-03 12:57:03# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:57]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er nú þannig að Alþingi veitir fjármagn til Samkeppnisstofnunar til að vinna þau verk sem hún á lögum samkvæmt að vinna. Það hefur verið af skornum skammti og það vitum við. En þessi skýrsla sem fyrrv. hv. þm. Sighvatur Bjögvinsson lét vinna var afarmikilvægt tæki til að koma í veg fyrir hringamyndun og fákeppni á markaði sem ég get tekið undir, hvað varðar verslun með matvæli, að er orðin ógnvænleg. Nú þegar hefur þetta þýtt að búið er að loka verslunum t.d. í nokkrum þorpum þar sem íbúar eru fleiri en 500 og það bitnar auðvitað verst á þeim sem síst skyldi, öldruðum sem ekki geta farið langar leiðir til þess að versla og þurfa að kaupa vörur á uppsprengdu verði í söluskálum.

En það er nauðsynlegt að Alþingi veiti fjármagn til skýrslunnar sem Samfylkingin hefur farið fram á að verði endurnýjuð og uppfærð.