Velferð barna og unglinga

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 13:56:35 (97)

2002-10-03 13:56:35# 128. lþ. 3.95 fundur 134#B velferð barna og unglinga# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[13:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þær undirtektir sem hér hafa verið. Ég þakka hæstv. félmrh. hans svör. Ég fagna sérstaklega þeirri hugmynd sem hann varpaði hér fram um að stofnuð yrði sérstök rannsóknarnefnd til að rannsaka dauðsföll barna og unglinga. Ég tel að það sé mjög góð hugmynd og vona að að henni verði unnið og henni hrint í framkvæmd. Enginn vafi leikur á því að slíkt gæti haft margvíslegt gildi, sérstaklega í forvarnaskyni.

Ég endurtek, og tek þar undir með hv. síðasta ræðumanni, að að sjálfsögðu eru aðstæður alls þorra barna og ungmenna hér góðar. Við erum að ræða þau frávik sem frá því eru. En þau eru líka staðreynd og þau verðum við að horfast í augu við og ræða. Ég hvet eindregið til þess að menn láti ekki hér staðar numið. Ég held að þessar niðurstöður ýmsar úr rannsóknum og skýrslum sem við höfum verið að gera að umtalsefni gefi okkur ærið tilefni til að halda áfram umræðum og vinnu að þessum málum. Ég hvet t.d. til þess að viðkomandi þingnefndir, félmn., heilbr.- og trn., allshn. og menntmn. sérstaklega, taki þessar skýrslur fyrir, hver á sínu sviði. Ég lýsi einnig eftir hugmyndum um betra samstarf eða meiri samræmingu á starfi innan Stjórnarráðs Íslands sem lýtur að málefnum barna og unglinga og velferð þessara hópa. Ég tek sérstaklega undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni. Það er sannarlega ástæða til að skoða sérstaklega aðstæður og hagi barna og unglinga í fjölskyldum af erlendu bergi brotnum. Ef við tölum t.d. um brottfall unglinga úr námi og ekki síst úr framhaldsskólunum þá liggja fyrir ískyggilegar tölur um að það er langmest meðal þessara fjölskyldna.

Ég endurtek svo þakkir mínar fyrir þessa umræðu og vona að henni verði fylgt eftir.