Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 10:58:52 (116)

2002-10-04 10:58:52# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[10:58]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði hæstv. fjmrh. að því hvort hann mundi beita sér fyrir því að lögum yrði breytt þannig að skattleysismörkin yrðu hækkuð, þannig að skattbyrðin færðist ekki stöðugt niður á hlutfallslega lægri tekjur. Hæstv. fjmrh. svaraði því ekki eða það mátti skilja svarið svo að hæstv. ráðherra mundi standa að óbreyttum skattleysismörkum miðað við það sem lög kveða á um. Ég harma ef svo er og skora á hæstv. ráðherra að endurskoða það og beita sér fyrir því að skattleysismörk verði hækkuð þannig að skattbyrðin verði áfram færð til, aftur á þá sem hafa hærri tekjur.

Varðandi skuldastöðu heimilanna þá er það svo að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir örlitlum hagvexti á næsta ári og sá hagvöxtur á einmitt að byggja á aukinni skuldaaukningu heimilanna. Það er í rauninni það sem á að drífa þann litla hagvöxt á næsta ári. Ég hef áhyggjur af þeirri stefnu að hagvöxtur þjóðarinnar byggi á því að heimilin safni auknum skuldum þó svo að þarna hægi nokkuð á.

Í lokin, herra forseti, leyfi ég mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Mun hæstv. ráðherra fylgja enn eftir þeim áformum sínum að selja hlut ríkisins í Búnaðarbankanum þó svo að í ljós komi veruleg handvömm og afar hæpin vinnubrögð í öllu því söluferli sem nú mun birtast okkur í skýrslu Ríkisendurskoðunar og hefur verið greint lauslega frá í fréttum? Mun hæstv. ráðherra halda áfram að beita sér fyrir sölu Búnaðarbankans eða mun hann staldra við, beita skynseminni, stoppa við og athuga hvernig stíga skuli næstu skref?