Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 13:00:44 (134)

2002-10-04 13:00:44# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[13:00]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tók fram í ræðu minni að ég hefði mikinn skilning á því og sagði frá vandamálum um 30 eða 40 sveitarfélaga en fulltrúar þeirra hefðu komið til okkar og rætt þetta á undanförnum vikum.

Ég vil hins vegar fara yfir þetta. Íslendingar, yngsta þjóð Evrópu, eyða í heilbrigðismálin um 8,8% af vergri landsframleiðslu. Það eru tvö eða þrjú ríki í Evrópu með hærra hlutfall, þar á meðal Frakkland og Þýskaland. Ég fullyrði að við verjum þannig mun hærri tekjum en aðrir vegna þess að við erum tekjuhærri þjóðir. Við verðum að horfa til þess að við getum ekki, þegar við horfum á ríkisfjármálin, horft á annað en þann samanburð. Úr því að öðrum þjóðum dugar þetta á okkur að duga það líka.

Vandamál okkar eru nákvæmlega þau sömu --- eins og ég tók fram --- og vandamálin í Evrópu. Tilhneigingin er til þess að færa stöðugt kostnaðinn yfir á hærra og hærra tæknistig. Það er það sem menn eru að berjast í alls staðar og við þurfum líka að berjast í hér á Íslandi, og átta okkur á því að við verðum að keppa að því að í grunnþjónustunni, í heilbrigðisþjónustunni, í mæðraeftirlitinu, barnaeftirlitinu og öllu þessu fyrirbyggjandi starfi, verðum við að vinna miklu betur og miklu skipulegar og forðast að missa allan kostnaðinn upp í hátæknina. Það er þetta sem er viðfangsefni okkar, og viðfangsefni allra ríkja Evrópu, og það er þetta skipulag og þessi tilhneiging sem við verðum að berjast gegn.