Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:20:08 (163)

2002-10-04 14:20:08# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mjög fróðlegt hefur verið að hlýða á umræður um fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar og vonandi á það eftir að fara í gegnum mikinn hreinsunareld í vinnslu þingsins nú í haust því að hér er að finna mjög margt sem þarfnast leiðréttingar við.

Við urðum ásátt um það við 1. umr. um fjárlagafrv. að höfuðtalsmenn flokkanna, fulltrúar í fjárln., fengju rýmri tíma en aðrir þingmenn til að ræða frv. og hvað mig áhrærir vil ég gera orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., að mínum. Hann fjallaði á mjög markvissan hátt um megindrættina í fjárlagafrv. Hann vakti athygli á þeirri pólitísku stefnu sem birtist í fjárlagafrv. og tefldi henni fram til samanburðar við þær áherslur sem við höfum sett, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, og byggja á jöfnuði og velferð.

Hann vakti einnig athygli á ýmsum veikleikum í frv. og tengdi þá þeirri óvissu sem ríkir um ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar og fór þar orðum um þá skuldasprengingu sem hér hefur orðið, bæði hjá fyrirtækjum og heimilum.

Það er tvennt sem hefur komið fram við umræðuna af hálfu stjórnarþingmanna sem ég vil nefna. Í fyrsta lagi tek ég undir með Ólafi Erni Haraldssyni, hv. þm. Framsfl. og formanni fjárln., þegar hann sagði að það hefði torveldað störf þingsins --- og hann vísaði til starfa fjárln. sérstaklega --- að Þjóðhagsstofnunar nýtur ekki lengur við. Það hlýtur að hafa verið þeim þingmanni mikið harmsefni að hafa ekki getað verið viðstaddur atkvæðagreiðsluna þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Við vitum hvernig það gerðist. Þetta var runnið undan rifjum hæstv. forsrh., og það hlýtur að hafa verið sama þingmanni, hv. formanni fjárln., mikil sálarkvöl þegar hann uppgötvaði að í fjarveru hans við þá atkvæðagreiðslu greiddu allir þingmenn Framsfl. atkvæði með því að þessi sama stofnun yrði lögð niður.

Þá vil ég staldra við hefðbundna trúarjátningu fjmrh. Sjálfstfl. við fjárlagaumræðuna. Hæstv. fjmrh., Geir H. Haarde, brást okkur ekki fremur en fyrri daginn. Hann sagði að stórkostlegar framfarir hefðu orðið í efnahagslífinu á undanförnum árum og vísaði hann þar sérstaklega í einkavæðingu ríkisstjórnarinnar. Vegna einkavæðingarinnar hefðu orðið stórkostlegar framfarir á Íslandi.

Ég trúi ekki öðru en að það hafi verið erfiðara nú en oft áður að fara með þessa trúarjátningu í ljósi þess að nú fer fram sérstök skoðun á vegum Ríkisendurskoðunar á störfum einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar á þeim spillingarslóða sem hún hefur skilið eftir sig. Greint var frá því í morgun að senn birtist okkur rannsókn Ríkisendurskoðunar á afmörkuðum þætti, þeim sem lýtur að sölu ríkisbankanna, en einn nefndarmanna í einkavæðingarnefndinni, fulltrúi hæstv. ráðherra, segist aldrei hafa kynnst eins óvönduðum vinnubrögðum og í tengslum við þá sölu. En hæstv. ráðherra fer að sjálfsögðu með sína trúarjátningu.

Hvað var það sem hann sagði? Í hverju fólst þessi mikla bylting í efnahagslífinu sem tengist einkavæðingunni? Jú, einkavæðingin hefur það í för með sér, sagði hæstv. ráðherra, að völd eru færð úr hendi stjórnmálamanna yfir á markaðinn. Þetta er alveg rétt. Einkavæðingin felur í sér valdatilfærslu. Völd eru tekin úr höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa og sett yfir á markað. Síðan sagði hæstv. ráðherra að á markaðnum gætu menn tekið svo skjótar ákvarðanir.

En hvað hafa valdatilfærslan og þessar breytingar í rekstrarformi haft í för með sér? Ferlið hefur verið þetta: þjónustustofnanir við almenning, við fyrirtæki, við menningarlíf og félagslíf, eru færðar yfir á markað og þær látnar starfa á grundvelli nýrra og annarra sjónarmiða, gróðasjónarmiða. Pósturinn var t.d. færður undan almannastjórn og gerður að hlutafélagi, að vísu enn þá í eigu ríkisins, en hann naut áður sambýlisins við Landssímann, naut stærðarhagkvæmni, sambýlis í húsnæði víðs vegar um landið og millifærslna í fjármunum sem var þess valdandi að hann gat haldið burðargjöldum niðri. Nú er öldin önnur.

Nú er að koma fram að vegið er að allri félagslegri útgáfu í landinu vegna þessara kerfisbreytinga. Hverjir notfæra sér póstinn? Ætli það séu ekki við öll sem sendum bréf og póstkort? Og við fáum send til okkar tímarit og blöð og ef burðargjöldin eru hækkuð þar hækka gjöldin fyrir þau blöð. Látum það nú vera. En ef litið er til samtaka á borð við Öryrkjabandalag Íslands sem sendir félagsmönnum sínum og skjólstæðingum 20 þús. eintök af fréttabréfi sínu, þá eru að gerast mjög alvarlegir hlutir. Útsending á þeim gögnum fyrir Öryrkjabandalagið kostaði áður um 400 þús. kr. Eftir þessa breytingu og þegar gjaldskráin er að fullu komin til framkvæmda mun það kosta Öryrkjabandalagið 1,3 millj. að senda fréttabréfið út. Þetta er einnig að gerast hjá öðrum félagasamtökum. Hafa menn lesið og kynnt sér hvað forsvarsmenn héraðstímarita og -blaða segja? Þeir segja að þess sé skammt að bíða að slík útgáfa leggist af. Þetta er hin stórkostlega bylting í þjóðlífinu sem hæstv. fjmrh. boðar okkur. Að leyfa sér að koma hingað fram og tala um hinar skjótu ákvarðanir á markaði þegar örfáir mánuðir eru liðnir frá því að upplýst var hver spilling hafði viðgengist innan Landssímans er ótækt.

Okkur var skýrt frá því að þar hefði verið fjárfest fyrir 11 milljarða. Í hvaða samhengi var skýrt frá því? Jú, það var þegar þáv. forstjóri fyrirtækisins, Þórarinn V. Þórarinsson, skýrði það út fyrir okkur hvernig á því stóð að fyrirtækið tapaði 400 millj. kr. í braskpeningum í Ameríku. Hann sagði: Þetta er nú ekki mikið, að tapa 400 millj. Við sem erum búin að fjárfesta fyrir 11 milljarða. Hreinn Loftsson, fyrrv. formaður einkavæðingarnefndar, sagði: Landssíminn er rekinn eins og hlutabréfasjóður.

Þetta er hin stórkostlega bylting og hinar miklu framfarir sem hæstv. fjmrh. Sjálfstfl. boðar okkur hér. Þetta eru staðreyndirnar og það er þess vegna sem þjóðin svarar, ef hún er spurð hvort hún sé ánægð með þessa stefnu, og segir nei. Yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga er andvígur sölu Landssímans. Meiri hluti Íslendinga er andvígur því að ríkið selji hlut sinn í ríkisbönkunum. Hvers vegna? Vegna þess að hún vill hafa þar kjölfestu í fjármálalífinu og koma í veg fyrir að braskarar nái þar undirtökum. Þetta eru staðreyndirnar. Og þó að hér sé meiri hluti á Alþingi fyrir þessari braskarastefnu er meiri hluti þjóðarinnar andvígur henni.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum en ég á margt ósagt og óska eftir að verða settur á mælendaskrá að nýju.