Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:34:21 (166)

2002-10-04 14:34:21# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég get nú glatt þingmanninn með því að næsta ársfrumvarp verður rautt, því það er litaserían gulur, rauður, grænn og blár hér í gangi.

En það er alveg makalaust með þennan hv. þm. að það má aldrei svara neinu sem fram er borið hér. Þá er bara komið upp og sagt: ,,Ja, nú skaltu bara hafa þig hægan. Ég skal sko koma á eftir og tala um þetta og tala um hitt og þá skaltu fá að kenna á því.`` Þannig talar hv. þm. alveg eins og forverar hans í Alþýðubandalaginu gerðu hér löngum þegar þeir hertóku þingsalinn og vildu ekki hleypa öðrum mönnum að. Ég kvíði því ekkert að hv. þm. tali um það sem hann vill þegar honum sýnist. En ég ráðlegg honum að tala um dagskrármálið fyrst og fremst.