Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:47:05 (169)

2002-10-04 14:47:05# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á hjúkrunarrýmin og málefni aldraðra. Ég tek undir að í þeim efnum er mikill vandi í heilbrigðiskerfinu og nú er í gangi vinna til að greina með hverjum hætti við getum brugðist sem skjótast við.

En ég vil sérstaklega taka undir þann þátt í máli hennar sem varðar heimaþjónustuna. Við erum með hátt hlutfall á stofnunum hér á landi, og heimahjúkrun og dagvistun er það sem við þurfum að efla. Það er alveg ljóst að við þurfum að beina sjónum að þessum þáttum. Um leið og við gerum tímabærar úrbætur í hjúkrunarrýmunum legg ég á þetta mikla áherslu. En það er alveg rétt sem kom fram að þarna skarast hlutverk ríkis og sveitarfélaga. Og reynslan af reynslusveitarfélagasamningnum á Akureyri í þessu hefur verið mjög góð.