Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:44:23 (231)

2002-10-04 17:44:23# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:44]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hingað til lands kom maður fyrir fáeinum dögum sem hefur reynslu af ólíku rekstrarformi. Það var heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna og hann varaði okkur við því að fara út á þá braut sem Bandaríkjamenn hafa farið út á. Hann varaði okkur við því að fara inn á þá braut sem Sjálfstfl. boðar. Reyndar hefur það vakið furðu mína við þessa umræðu hve mjög hart sjálfstæðismenn sækja núna á um að einkavæða innan heilbrigðisþjónustunnar. Það má ekki kalla þetta einkavæðingu segja þeir. Nú á að kalla einkavæðinguna einkarekstur. Það er allt annað, segja menn, vegna þess að sjúklingarnir eiga ekki að borga, skattborgarinn á að greiða en einkaaðilar eiga að koma að þessum rekstri.

[17:45]

Ja, það er nú svo með sjúklingana, sjúklingagjöldin og kostnaðargreininguna sem hér hefur verið til umræðu, að ég held að mjög gagnlegt væri að fara svolítið nánar ofan í kjölinn á því efni. Það hefur nefnilega verið gerð á þessu könnun, hún var framkvæmd á vegum BSRB sl. haust. Og tilefnið var að fram höfðu komið tölur, samanburðartölur hjá OECD, um kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Á þessum tölum var að skilja að kostnaðarhlutur sjúklinga hefði farið minnkandi á síðustu árum þannig að það var ákveðið hjá BSRB, þar sem ég þekki nokkuð til, að fylgja nokkrum sjúklingum eftir. Teknir voru nokkrir einstaklingar sem voru hrjáðir af tilteknum algengum sjúkdómum --- þetta var gert í samráði við lækna, færustu menn --- og þeim fylgt í gegnum meðferð á fimm ára fresti, 1990, 1996 og síðan 2001, og athugað á raunvirði í dag, uppreiknuðu verði, hvað þeir greiddu úr eigin vasa. Þegar þetta var skoðað kom í ljós að útgjöld einstaklings sem var þjáður af lungnaþembu höfðu hækkað um 733% að raunvirði. Árið 1990 greiddi hann 8.500 kr. en 2001 70.900. Ég tek annað dæmi, þunglyndissjúklingur sem árið 1990 greiddi 19.626 kr. greiddi árið 2001 53.388 kr. Kostnaðaraukningin hjá honum hafði orðið mest á árunum 1990--1996, 177,83%, en síðan dró heldur úr þessum kostnaði 1996--2001. Samanlagt var hækkunin rúmlega 172%. Það mætti taka ofnæmissjúkling sem 1990 greiddi 19.481 kr. en 2001 57.067 kr. Þetta eru raunverulegar fjárhæðir sem sjúklingurinn þarf að taka upp úr sínum vasa.

Við megum aldrei gleyma því í þessum samanburðartölum, þegar við erum með tölur OECD undir, að þær eru náttúrlega mjög grófar. Það er hlutfall af umfangi efnahagsstarfseminnar hverju sinni. Þær gefa ákveðna vísbendingu en segja að sönnu ekki allan sannleikann. Þetta segir hins vegar þann sannleika sem snýr að hverjum og einum, hvað það kostar að vera veikur á Íslandi. Það er dýrara að vera veikur á Íslandi í dag en það var fyrir 10 árum. Þetta eru staðreyndir. Og þetta á að vera okkur áhyggjuefni.

Víkjum nú aftur að málflutningi Sjálfstfl. í þingsal sem hefur haft uppi grimman áróður um að við hefjum einkavæðingu á heilbrigðiskerfinu. Hér kom ágætur þingmaður, hv. þm. Ásta Möller, í dag og spurði hvort ég þekkti ekki muninn --- eða öllu heldur hvort ég væri andvígur því að hér væru reknar öldrunarstofnanir á vegum Grundar eða sjómannasamtakanna, Dvalarheimila aldraðra sjómanna. Hún sagði að þetta væru ekki opinberar stofnanir í eiginlegum skilningi og spurði hvort ég væri þá á móti þeim þegar ég talaði gegn einkarekstri. Nei, alls ekki. Ég hef aldrei verið andvígur því, og það á við um okkur öll í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, við höfum aldrei verið andvíg stofnunum sem hér hafa verið starfandi og eru sprottnar upp úr samtökum sjúklinga eða verkalýðshreyfingar og reka starfsemi af þessu tagi án þess að sækjast eftir arði, án þess að gera það í ábataskyni. Við höfum aldrei verið andvíg slíkri starfsemi. Það sem við andæfum og vörum við er að hleypa hagnaðar- og gróðasjónarmiðum inn á spítalaganginn og inn í skólastofuna í grunnskólum landsins. Það er þetta sem við erum að vara við, og það var þetta sem heilbrrh. Bandaríkjanna varaði við.

Hér í fjárlagafrv. er gerð grein fyrir framlagi til dvalarheimila aldraðra. Hér er heilmikill listi yfir framlagið þar. Þar eru líka þær stofnanir sem ég vísaði til. Ég ætlaði að fletta upp á Sóltúni sem Öldungur hf. reisti og fann ekki en fann það síðan á annarri síðu því hér segir, með leyfi forseta:

,,Í töflunni hér að neðan`` --- og það er vísað til þessarar töflu hér þar sem dvalarheimilin öll eru skilgreind --- ,,eru öll hjúkrunarheimili nema Sóltún í Reykjavík en það heimili fær framlög samkvæmt sérstökum samningi. Á Sóltúni eru 92 hjúkrunarrými og heildargjöld eru áætluð 679 millj. kr. á næsta ári miðað við fulla nýtingu, þar af eru 102 millj. kr. vegna húsnæðiskostnaðar.``

Þarna er talað um 92 hjúkrunarrými. Tökum nú dvalarheimili aldraðra af svipaðri stærðargráðu. Eigum við að taka Sólvang í Hafnarfirði? Þar eru 96, aðeins fleiri en þessi 92 á Sóltúni. En hvert er heildarframlagið til Sólvangs í Hafnarfirði? Það eru rúmlega 453 millj. En eins og ég gat um áðan eru 679 millj. kr. til Sóltúns. Og menn segja að þarna sé inni húsnæðiskostnaðurinn líka sem Sóltún fær ókeypis, að fullu greiddan frá ríkinu, ekki hinir, aðeins að hluta til eftir slíkum leiðum. En ef við tökum þann kostnað frá standa eftir 577 millj. sem er talsvert hærri tala en 453 millj. sem Sólvangur í Hafnarfirði fær. Hvernig stendur á þessum mun? Ríkisendurskoðun var falið að kanna í hverju hann væri fólginn. Ríkisendurskoðun sagði --- og ég mun gera grein fyrir því síðar, við 2. umr., við annað tækifæri --- að hann væri tilkominn vegna hagnaðar sem eðlilegt væri --- ég er nú ekki sammála ríkisendurskoðanda að því leyti --- að slíkir rekstraraðilar tækju út úr þessari starfsemi.

Og síðan er Sjálfstfl. að tala um að kanna önnur rekstrarform. Hvað er þetta? Við höfum það hér svart á hvítu. Þetta er miklu kostnaðarsamara fyrir skattborgarann en sú leið sem Íslendingar hafa farið, að byggja á sköttum og samneyslu og að bægja frá okkur þeim aðilum sem ætla að hafa arð út úr þessu kerfi.

Að lokum, herra forseti, langar mig að gera eitt að umræðuefni. Í vor ritaði kona nokkur, sem er atvinnulaus, forsrh. landsins bréf og sendi samrit til félmrh. Hún sagðist vera atvinnulaus og gæti ekki lifað af atvinnuleysisbótum sínum. Hún vísaði í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 25. grein mannréttindayfirlýsingarinnar þar sem segir að fólk skuli hafa rétt til lífskjara til verndar eigin heilsu og vellíðan og fjölskyldu sinnar. Og hún sagði: ,,Hvernig á ég að geta dregið fram lífið af því sem mér er skammtað?`` Lengi vel var hún ekki virt viðlits. Síðan fékk hún bréf frá félmrn. þar sem segir að nú hafi atvinnuleysisbæturnar verið hækkaðar og því standist þessi kjör allar alþjóðlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafa tekist á herðar, þar á meðal mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Hver eru þessi kjör? Hver skyldu þessi kjör vera? Hvað skyldu atvinnulausir fá greitt í mánuði hverjum? Þeir fá 73.765 kr. Hvar er þetta fólk að finna í sólskini hæstv. fjmrh. Geirs H. Haardes? Ég held að sólin skíni ekki á þetta fólk, a.m.k. ekki úr frv. ríkisstjórnarinnar.