Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:54:57 (232)

2002-10-04 17:54:57# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:54]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan koma að heilbrigðisþætti hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það er ánægjulegt að ummæli heilbrrh. Bandaríkjanna um ágæti íslenskrar kúamjólkur hafi orðið til þess að Bandaríkin hafi hækkað í verði hvað snertir álit Íslendinga á ummælum heilbrigðisyfirvalda í Bandaríkjunum.

Bandaríkin reka ekki eitt heilbrigðiskerfi, þau reka mörg heilbrigðiskerfi. Það hefur verið ákaflega áhugavert að fylgjast með þróun þeirra kerfa. Mörg þeirra eru ágæt og sum hver eru mjög slæm. Við ættum frekar að læra af þeim heldur en að agnúast út í þau.

Ég vil líka nefna í sambandi við kostnaðarhlutdeild sjúklinga að sjálfstæðismenn hafa lagt mikla áherslu á að það yrði þak á greiðslum sjúklinga og að þjónustugjöld yrðu í samræmi við hag hvers og eins.

Hvað snertir einkavæðingu heilbrigðiskerfis er einkavæðing, samkvæmt þeirri kokkabók sem ég lærði í hagdeild Háskóla Íslands, allt annað en einkarekstur og ég vil benda á að læknar og heilbrigðisstarfsmenn sem hafa starfað utan sjúkrahúsa á Íslandi á undanförnum áratugum, og svo lengi sem ég man, hafa starfað í einkarekstri sem hefur bara gengið bærilega þar sem, eins og kom hér fram, kostnaður á Íslandi við heilbrigðisþjónustu er í lægri kantinum miðað við það sem gerist í samanburðarlöndum.