Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:19:11 (326)

2002-10-08 14:19:11# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að ég sakna þess mjög að þeir ráðherrar sem þessu máli tengjast alveg sérstaklega, eins og hæstv. forsrh., yfirmaður einkavæðingarnefndar, sem mjög hefur hér komið við sögu, skuli ekki sjá sér fært að sitja í salnum því að hér er ekkert venjulegt mál á ferð, herra forseti. Hér er nú bara sjálft hjartað í stjórnarstefnunni sem á undir, sjálft einkavæðingartrúboðið. Og meðferð þessara mála er skipað með mjög sérstökum hætti hjá framkvæmdarvaldinu. Það er fjögurra manna ráðherranefnd sem er yfir þessum málum þannig að hin pólitíska ábyrgð stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl., er eins skýr og nokkur getur verið, alveg óvenjulega skýr. Formaður Sjálfstfl. og varaformaður Sjálfstfl., formaður Framsfl. og einn af ráðherrum flokksins sitja í þeirri nefnd. Ég tel það alveg lágmark að einhver af þessum ráðherrum Sjálfstfl. sé hér til svara en við erum auðvitað þakklát fyrir að hæstv. iðn.- og viðskrh. er hér.

Það er reyndar orðið ljóst að sjálfstæðismenn eru á miklum flótta undan sínum eigin verkum og sinni eigin stefnu í einkavæðingarmálum, þannig að ég skil það vel að þeir skuli haldast illa við hérna í þingsalnum eins og endemin eru orðin í þessu máli. Og nú ber það æ oftar við að þeir sjálfstæðismenn koma hér upp og segja: Við erum ekki að tala fyrir einkavæðingu, nei, nei, nei, við erum á móti einkavæðingu í velferðarkerfinu. Við viljum einkarekstur --- já, við viljum einkarekstur, það er eitthvað allt annað.

En hvað segja verkin? Þau sýna merkin. Framganga ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í einkavæðingu á sl. tíu, ellefu árum er að verða eitt af meiri hneykslum stjórnmálasögunnar á síðari áratugum, það er bara þannig. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór hér yfir það á grundvelli gagna frá Ríkisendurskoðun og slíkum aðilum hvernig milljarðar hafa verið hafðir af almenningi í landinu með hneykslanlegri framkvæmd þar sem hver eignin á fætur annarri hefur verið látin fara á bullandi undirverði og oft er þar vaðandi klíkuskapur í kringum. Þetta liggur fyrir. Framkvæmdin hefur fengið harða áfellisdóma frá eftirlitsaðilum hins opinbera eins og Ríkisendurskoðun og er það þá við hæfi að hæstv. ráðherrar laumist úr salnum? Er þá kjarkur manna ekki meiri en þetta? Hvar eru formaður og varaformaður Sjálfstfl.? Hafa þeir svo vondan málstað að þeir þori ekki hérna til þessarar umræðu? Þeim brá fyrir hér áðan, a.m.k. helmingnum af þeim, en hurfu óðar á braut aftur.

Staðreyndin er auðvitað sú, herra forseti, að þetta einkavæðingartrúboð eins og það hefur verið rekið hefur reyndar víða farið illa í heiminum, en hér hefur það verið rekið með alveg sérstaklega ógæfulegum hætti á grundvelli fyrirframsannfæringar, menn hafa talið sig yfir það hafna að rökstyðja mál sitt. Þetta hefur verið á grundvelli fyrirframsannfæringar um að einkavæðing væri bara alltaf af hinu góða, alveg sama hvað í hlut ætti og hvernig að henni væri staðið. Menn hafa stundum misst út úr sér hluti, því það er stundum tungunni tamast sem hjartanu er kærast, jafnvel gengið svo langt að láta að því liggja að það gerði ekkert til þó að eignirnar færu á hálfvirði, eins og fyrrv. fjmrh., vegna þess að það væri svo mikilvægt að einkavæða, tilgangurinn helgaði algerlega meðalið. Og þá er ekki von á góðu þegar menn nálgast viðfangsefnin á þann hátt.

Fyrir löngu síðan hafa menn nú í nálægum löndum og fjær endurskoðað mál sín í þessum efnum og ég fullyrði að það fyrirfinnst ekkert viðlíka ofstæki í einkavæðingu lengur, hvorki í Bretlandi, Bandaríkjunum né Nýja-Sjálandi, í sjálfum tilraunastofunum. Þar hafa menn fyrir löngu endurskoðað vinnubrögð sín. (KPál: Öðru nær.) Það er bara aldeilis ekki þannig, hv. frammíkallandi, Kristján Pálsson, og væri gott að hv. þm. labbaði hér nokkrum sinnum fram fyrir ræðustólinn. Það er ekki þannig.

Ég bendi t.d. á að í Nýja-Sjálandi hefur ríkisstjórn lofað því að ef hún fái endurkjör muni hún hverfa alveg frá fyrri vinnubrögðum, ríkisstjórn leifanna af verkamannaflokknum sem þar voru eftir. Í Bretlandi hafa menn hætt að einkavæða t.d. í samgöngum og veitum vegna þess að það hefur gefist svo illa. Það er þvílík bullandi óánægja með t.d. öryggismálin hjá bresku járnbrautunum og það hvernig okrað var á almenningi þar sem veitur í einokunaraðstöðu voru einkavæddar, að þar hafa menn hætt. Í Bandaríkjunum hafa menn neyðst til þess að leysa til hins opinbera á nýjan leik orkumannvirki og veitur sem voru einkavæddar með þvílíkum endemum að allt fór á dúndrandi hausinn og Kalíforníufylki, Washingtonfylki og fleiri hafa mátt punga út milljörðum dollara til að hægt væri að skaffa almenningi rafmagn og vatn þegar einkavæddu fyrirtækin voru komin á rassinn. Þannig er þetta nú.

En uppi á Íslandi vaða menn áfram, alveg sama hvers konar kjaftshögg menn fá og hvernig sem gengur. Það eina sem kemur aldrei til greina er að að vera menn til að viðurkenna mistök sín og endurskoða framgöngu sína. Þessi ferill allur, herra forseti, hefur verið varðaður áföllum eins og hér hefur verið ágætlega rakið af framsögumanni, Ögmundi Jónassyni, SR-mjöl, Áburðarverksmiðjan, Landssíminn. Þarf að rifja það upp, endemin með Landssímann sem átti að einkavæða en ríkið hefur svo neyðst til að bjóða almenningi að kaupa aftur það sem var vélað út á almenning þegar allt var komið á hliðina og ríkið á núna Landssímann aftur? Hvar eru þau áform nú og er Framsfl. ekki stoltur af því að hafa lagst flatur undir stefnu íhaldsins? Þóttist ætla að spyrna við fótum og ekki einkavæða grunnnetið en lét sig hafa það og útkoman er sú sem raun ber vitni. Þvílík endemis ósköp að það hálfa væri nóg. Og núna síðast bankarnir. Hvernig hefur það gengið með bankana? Nei, herra forseti, ég held að við þurfum ekki að rifja þær hörmungar upp.

Það liggur fyrir algjörlega óhrekjanlegt að þarna hafa vinnubrögðin verið forkastanleg, engin stefna eða reglur mótaðar fyrir fram, ekki sett lög, hvað þá það, eins og víða hefur þó verið gert erlendis að menn byrjuðu þessi viðfangsefni þannig að sett voru lög um framgangsmátann. Í Noregi hefur norska Stórþingið mótað reglur í því sem kallað er --- eða samþykkt stefnu í svokallaðri ,,Stortingsmelding``, þar sem leikreglurnar eru settar niður og þær eru fastar og ekki hringlað með þær. Hér er prjónað upp með nýja aðferð í hvert einasta sinn eftir því hvernig pólitískir vindar blása, eftir því hvaða skoðun ráðherrarnir hafa í augnablikinu á dreifðri eða ekki dreifðri eignaraðild og eftir því hverjir væru æskilegir og pólitískt þóknanlegir kaupendur, en það hefur líka ekki síst skipt máli í þessu ferli.

Eru þetta ekki orðin ærin hneyksli, herra forseti? Eiga ekki hæstv. ráðherrar hér í þingræðisríki, í þingbundinni ríkisstjórn, að koma og standa fyrir máli sínu? Þvílíkur heigulsháttur að skríða undir sæng þegar slíkir hlutir eru á dagskrá.

Að lokum, herra forseti, þá er alveg augljóst mál að það eru öll rök til þess að stöðva þetta ferli nú. Ef ekki vill betur til þá á Alþingi að taka í taumana, annað væri ábyrgðarleysi þegar við stöndum frammi fyrir vinnubrögðum af þessu tagi og stöndum frammi fyrir því að hagsmunir hins opinbera, almennings í landinu, hafa verið bornir fyrir borð svo milljörðum króna skiptir. Og þess vegna verður að gera hvort tveggja í senn, stöðva ferlið og láta Ríkisendurskoðun hraða rannsókn sinni á málinu.