Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:23:15 (347)

2002-10-08 16:23:15# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er enginn vafi á því að vandinn í heilbrigðiskerfinu er margþættur og ég held að það verði að tala um vanda sem vanda þegar hann blasir við hverjum manni. En tvennt ber þó hæst að mínu mati. Hið fyrra er ósköp einfaldlega að ekki er nægilegt fjármagn veitt til heilbrigðiskerfisins í landinu. Hið síðara er það að við er að glíma skipulagsleg vandamál, skipulagslegar skekkjur sem menn hafa ýtt á undan sér að taka á um alllangt árabil. Fyrir hvorugt þetta verður núv. hæstv. heilbrrh. með sanngjörnum hætti hengdur. Til þess hefur hann verið of skammt í embætti. En hitt er ljóst að flokkur hans ber að sjálfsögðu verulega ábyrgð á ástandinu nú síðari árin eftir sjö ára veru í ríkisstjórn og heilbrrn. Og Sjálfstfl. eftir ellefu ára veru í ríkisstjórn ber að sjálfsögðu að sínu leyti jafnmikla pólitíska ábyrgð á þeirri heilbrigðisstefnu og því ástandi heilbrigðismála sem er á hverjum tíma, eins og stjórnarflokkar gera.

Varðandi fyrri þáttinn, um fjárveitingarnar, þá hefur því ranglega verið haldið fram, því miður, að Íslendingar verji meiru til þessa málaflokks en við mætti búast miðað við velmegunarstig þjóðarinnar og miðað við aðstæður hér til þess að halda slíkri þjónustu uppi. Við verjum nú á þessu ári u.þ.b. 7,5% af vergri landsframleiðslu af hálfu hins opinbera og einstaklingarnir sjálfir bera um 1,5% af sama hlutfalli. Það sem er hins vegar markvert er að þessi hlutur einstaklinganna hefur nú á tiltölulega fáum árum hækkað um u.þ.b. hálft prósent af vergri landsframleiðslu, um u.þ.b. hálft prósent af um 800 milljarða króna tölu, eða um 4 milljarða kr., og það munar um minna þegar haft er í huga hverjir það eru sem þarna bera kostnaðinn, þ.e. sjúklingar, þeir sem nota lyf, rannsóknarþjónustu og annað því um líkt.

Hvað síðari þáttinn snertir er auðvitað ljóst að hin veika staða heilsugæslunnar, sérstaklega hér á suðvesturhorninu, ónóg stoðþjónusta við sérhæfða og dýra bráðaþjónustu, t.d. ónógt framboð á hjúkrunarrýmum, sjúkrahótelum og jafnvel heimahjúkrun, veldur því að dýr legurými á bráðasjúkrahúsum eru teppt af hjúkrunarsjúklingum. Einkavæðing, stjórnlaus einkavæðing þar sem menn hafa getað sent reikninginn á Tryggingastofnun og síðast en ekki síst almennt skipulagsleysi, skortur á markvissri stefnumótun undanfarin ár, allt þetta, herra forseti, á þarna hlut að máli.

Það sem þarf að gera ósköp einfaldlega, herra forseti, er að þessi mikilvægi málaflokkur þarf að komast inn úr kuldanum. Það verður að takast á við þau vandamál og hafa þau í forgangi sem alvarlegust eru. Þar nefni ég sérstaklega biðlista í kerfinu og ástand geðheilbrigðismála.