Málefni aldraðra og húsnæðismál

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:47:09 (406)

2002-10-09 15:47:09# 128. lþ. 7.94 fundur 161#B málefni aldraðra og húsnæðismál# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Íbúðalánasjóður er myndaður með samruna Byggingarsjóðs ríkisins, Byggingarsjóðs verkamanna og húsbréfadeildar. Í húsbréfadeild voru núvirtir 6,3 milljarðar, í Byggingarsjóði ríkisins 16,9 milljarðar en staða Byggingarsjóðs verkamanna var neikvæð um 16,1 milljarð. Eigið fé Íbúðalánasjóðs var því um 7 milljarða þegar hann tók til starfa. Yfir 16 milljarðar voru uppétnir vegna neikvæðs vaxtamunar.

Íbúðalánasjóður á lögum samkvæmt að vera sjálfbær. Íbúðalánasjóður býður út húsnæðisbréf, lífeyrissjóðir kaupa og ráða þeir í stórum dráttum vaxtastigi í húsnæðislánum. Ef vaxtastig húsnæðislána er fjarri ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna myndast afföll á húsbréfum og þau hafa farið lækkandi undanfarið.

Vextir hafa ekki verið hækkaðir á eldri lánum til leiguíbúða, félaga eða sveitarfélaga. Þeir eru yfirleitt 1,1% eða 2,4%, vegið meðaltal þeirra er 1,52%. Ákveðið hefur verið að greiða niður lán til 400 leiguíbúða á ári og lánin til þeirra bera 3,5% vexti. Þetta eru lán til sveitarfélaga, námsmanna, Öryrkjabandalagsins, Samtaka eldri borgara og fleiri sem byggja fyrir fólk sem eru undir skilgreindum tekju- og eignamörkum.

Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna í ár hefur verið um og yfir 6% en er nú sem betur fer á niðurleið, komin niður í 5,25%. Ríkissjóður greiðir á þessu ári niður vexti um 60 millj. Ríkissjóður mun samkvæmt fjárlögum á næsta ári greiða niður vexti um 150 millj. Þessi 3,5% vextir hafa auðvitað áhrif til hækkunar húsaleigu ef miðað er við 1% vexti en það er rétt að hafa í huga að flest námsmannasamtök, Félagsbústaðir og þeir sem eiga margar leiguíbúðir geta jafnað út leigu. Eins og ég sagði áðan verða vegnir meðalvextir árið 2000 á leiguíbúðum sveitarfélaga 1,52%.

Leigjendur sveitarfélaga og félagasamtaka fá húsaleigubætur. 6.000 leigjendur fá nú húsaleigubætur, a.m.k. 900 millj. Þær eru orðnar skattfrjálsar, enda séu þeir undir skilgreindum tekju- og eignamörkum. Sérstakt átak er í gangi með þátttöku lífeyrissjóðanna og Íbúðalánasjóðs um að byggja 600 leiguíbúðir á fjórum árum og lán til þeirra eru með 4,5% vöxtum. Búseti byggir og rekur helminginn af þessum íbúðum. Þetta átak er komið í gang.

Lánsloforð Íbúðalánasjóðs í ár til leiguíbúða eru 400 íbúðir á 3,5% vöxtum, 150 íbúðir á 4,5% vöxtum og 200 íbúðir á markaðsvöxtum, þ.e. 750 leiguíbúðir bætast við markaðinn í ár. Það er allnokkur úrbót. Biðlistar hafa myndast hjá Félagsbústöðum og námsmannasamtökum og Öryrkjabandalagi vegna þess að leiga þar er sanngjarnari. Hún er lægri en á almennum markaði. Það er ekkert óeðlilegt við það að fólk reyni að komast þar í hús ef það á þess kost. Ég hef ekki orðið var við að menn haldi að sér höndum við byggingu leiguhúsnæðis heldur virðist mér góður gangur í því.

Varðandi stofnstyrkina var farið mjög nákvæmlega yfir þessa hugmynd sem sett var fram um stofnstyrkina. Því miður reyndist hún ekki raunhæf vegna þess að það þurftu að vera svo háir stofnstyrkir til þess að þeir verkuðu eitthvað á leiguna. Þeir þurftu að vera nokkrar millj. á hverja íbúð til að gera eitthvert gagn.

Varðandi hækkun fasteignaskatta má líka nefna á móti lækkun eignarskatts.