Málefni aldraðra og húsnæðismál

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 16:06:43 (413)

2002-10-09 16:06:43# 128. lþ. 7.94 fundur 161#B málefni aldraðra og húsnæðismál# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrst ábending til hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Ég vísaði í reglugerð Íbúðalánasjóðs um hámarksleigu vegna félagslegs leiguhúsnæðis og fór þar með rétt mál.

Í öðru lagi, vegna orða hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, tek ég undir að það verður fróðlegt að fylgjast með tilraunum ríkisstjórnarinnar til sáttagjörðar við aldraða sem væntanlega liggur fyrir, þ.e. niðurstaða þeirrar umræðu, áður en við afgreiðum fjárlög í haust.

Varðandi ræðu hæstv. félmrh., þá veldur hún --- ég vil ekki nota orðið vonbrigði heldur áhyggjur. Hann vísar í máli sínu til sögu liðinnar tíðar og vísar jafnframt í þá staðreynd að enn eru greiddir niður vextir á ýmsum lánum. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum stödd á breytingaskeiði. Fyrirkomulagi húsnæðismála var breytt. Það var tekin ákvörðun um það að færa öll vaxtakjörin í átt til markaðar, líka gagnvart þeim sem reisa félagslegt leiguhúsnæði. Ég rakti það hvaða áhrif þetta hefði þegar haft, að hafa hækkað vexti úr 1% í 3,5.

Ríkisstjórnin ræddi á sínum tíma um að leysa þetta með stofnstyrkjum. Nú segir hæstv. ráðherra að það sé svo dýrt að gera það. Hvers vegna? Vegna þess að stuðningurinn sem áður var veittur í formi lágra vaxta nam einmitt þessum uppæðum sem menn tíma nú ekki að reiða af hendi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst honum sæmandi í svari sínu, í ljósi þess að hér eru mörg hundruð fjölskyldur staddar í bráðri neyð á biðlista og nánast á götunni, að vísa í sjóðstreymi í Byggingarsjóð verkamanna fyrir 10--15 árum?