Rekstur Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 11:16:00 (431)

2002-10-10 11:16:00# 128. lþ. 8.3 fundur 9. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[11:16]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir þessa tillögu um rekstur Ríkisútvarpsins. Það er líka mjög gott að fá hana til umræðu á þinginu svo snemma þannig að hún sé tekin fyrir á góðum tíma og allir flokkar hafi möguleika á að tjá sig. Að mörgu leyti get ég tekið undir þessa tillögu en margt í henni er jafnframt álitamál. Til að byrja með leggur hv. 18. þm. Reykv. til að kosin verði nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka til að semja frv. um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins. Nú mun vera von á frv. frá hæstv. menntmrh. um Ríkisútvarpið. Ég veit ekki mikið um það frv. en svo mikið veit ég að það er ekki samið með vitund og þátttöku fulltrúa annarra þingflokka og mér þykir það mjög miður. Ég held að ef við eigum að hafa breiða samstöðu um þennan miðil þurfi einmitt að koma sem flestum sjónarmiðum að þegar verið er að fjalla um mál hans. Það er mjög miður ef setið er í lokuðum bakherbergjum í menntmrn. við að semja frv. um rekstur Ríkisútvarpsins.

,,Ríkisútvarpið er viðurkennd stoð íslenskrar tungu og menningar`` er upphaf á greinargerð hér og þetta eru vissulega orð sem ég get tekið undir af heilum hug og hjarta. Ég hef alltaf litið á Ríkisútvarpið sem háskóla þjóðarinnar, og margt fólk sem ég hef þekkt mjög náið um dagana hefur talað gott mál og skilið lífið í kringum sig ekki síður en þeir sem hafa notið háskólamenntunar, eða langskólagöngu eins og það er stundum kallað, vegna þess að það hefur stöðugt hlustað á Ríkisútvarpið. Jafnvel þó að það ynni við t.d. járnsmíðar hefur það haft aðstöðu til að hlusta á Ríkisútvarpið alla daga. Ég þekki aðila sem hafa verið svo vel að sér um t.d. tónlist af því að hlusta á Ríkisútvarpið að þeir þekktu nánast hvert einasta tónverk í tónsögu heimsins ef þeir heyrðu bara fyrstu nóturnar. Og þetta var allt úr Ríkisútvarpinu. Þetta finnast mér ákaflega mikil meðmæli með stofnuninni.

Ég lít þannig á, eins og sá sem leggur fram þetta frv., að slíkur miðill sem á jafnsterka stöðu í vitund þjóðarinnar og íslenska Ríkisútvarpið á --- sem er mjög sterkt miðað við aðrar þjóðir --- geti ekki verið öðruvísi en í þjóðareign, það sé alveg útilokað. Ég bregst ekki reiðari við en þegar einhverjar markaðslausnir um starfsemi Ríkisútvarpsins eru viðraðar í mín eyru. Auðvitað er Ríkisútvarpið eign þjóðarinnar og rekið á ábyrgð þjóðarinnar allrar. Hins vegar getur verið álitamál hvernig við komum þeirri ábyrgð sem best fyrir.

Mig minnir að það hafi verið í fyrra sem hæstv. þáv. menntmrh. fékk í umræðum á Alþingi skyndilega hugmynd um að flytja Rás 2 til Akureyrar. Því var fylgt eftir í framhaldinu og ég verð að segja að þá hafði ég mjög miklar efasemdir um þá ráðstöfun. Ekki svo að ég viti ekki að það er auðvitað hægt að reka gott útvarp frá Akureyri en mér fannst að það ætti að efla svæðisútvarpið á Akureyri og halda áfram að reka Rás 2 í Reykjavík. Auðvitað á Rás 2 að vera rekin með Ríkisútvarpinu. Mér finnst einhvern veginn að hugmyndin um að færa Rás 2 algjörlega til Akureyrar sé pínulítið forsmekkur að því að kannski eigi að losa hana frá og gera einhverjar aðrar ráðstafanir um fjármögnun og framtíð hennar. Ég tek ekki undir þær hugmyndir, og jafnvel þó að búnar séu eða a.m.k. byrjaðar framkvæmdir lýsi ég miklum efasemdum með þá ráðstöfun.

Við vitum öll hversu mikilvægt Ríkisútvarpið er og sú mikla hlustun sem það hefur meðal þjóðarinnar, hversu mikilvægt það er okkur ef vá ber að höndum. Sú mesta vá sem hefur borið að höndum síðan ég man eftir mér er sjálfsagt eldgosið í Vestmannaeyjum og ég, eins og aðrir með þessari þjóð, vaknaði kl. 7 við þessi válegu tíðindi í Ríkisútvarpinu. Fólk sleppti ekki tækinu frá sér, það lá við útvarpstækin dögum saman til að fylgjast með hverri einustu hræringu. Ég held að þjóðin standi aldrei betur saman en á slíkum stundum og Ríkisútvarpið er okkur afskaplega mikilvægt í þeim tilvikum.

Ég tek undir það sem lagt er til hér, að Ríkisútvarpið verði fjármagnað af fjárlögum og það að fullu og ekkert verði skorið við nögl. Mér finnst að Ríkisútvarpið sé sú stofnun númer eitt sem okkur beri að fjármagna af fjárlögum ríkisins. Hins vegar er ég ekki jafnviss um að við eigum að hafna viðskiptaauglýsingum í Ríkisútvarpinu. Þetta er bara atriði sem ég á eftir að hugsa til hlítar en ég er ekki viss um að við eigum að gera það vegna þess að auglýsingar, þótt viðskiptaauglýsingar séu, hafa líka upplýsingagildi fyrir þá sem hlýða á og mjög margir einstaklingar hlusta ekki á annað útvarp en Ríkisútvarpið. Ég tel kannski ekki rétt að þeir fari í öllum tilfellum á mis við viðskiptaauglýsingar. Auk þess ann ég Ríkisútvarpinu vel þessarar tekjulindar. Mér finnst að það sé vel að henni komið og þá hvílir ekki jafnþungt á ríkinu að fjármagna það sem eftir er en það tel ég að ríkinu beri að gera. Ég tel að aldrei verði farsælt, eins og mér skilst að nú séu uppi hugmyndir um, að breyta afnotagjaldi af Ríkisútvarpinu í nefskatt því að það þýðir hreinlega að þá leggst afnotagjaldið þyngst á stærstu fjölskyldurnar og það er jú ekki það sem við viljum. Er það nokkuð?