Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:03:32 (446)

2002-10-10 12:03:32# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:03]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er mjög góð yfirlýsing. Hv. þm. vill lækka skatta almennt á öllum. Hann vill lækka skatta til jafns á einstaklingum sem hafa 2 millj. kr. á mánuði og þeim sem eru með 90 þús. kr. á mánuði. Þetta er afar athyglisvert. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig sem ber auðvitað að virða. En ég er algjörlega ósammála því. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður geti ekki fallist á að það sé sanngjarnt og jafnframt ódýrast fyrir ríkissjóð að byrja á þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, öldruðum, öryrkjum og þeim sem eru með strípaðar atvinnuleysisbætur og annað slíkt. Er ekki sanngirnismál að byrja á því, líka sanngirnismál gagnvart ríkissjóði? Ég segi fyrir mitt leyti, ég vil ekki lækka skatta á mér eða hv. þm. Pétri Blöndal. Við höfum ekkert með skattalækkun að gera í dag. En ég vil ganga fyrsta skref og lækka skatta á öldruðum og öryrkjum og þeim sem ég hef nefnt og ég trúi því ekki að hv. þingmaður geti ekki fallist á að þetta sé besta fyrsta skref til lækkunar skatta.