Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:19:15 (453)

2002-10-10 12:19:15# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:19]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er með ólíkindum að heyra enn einu sinni að þessi kerfisbreyting muni kosta ríkissjóð 1 milljarð í minni tekjum. Það er með ólíkindum vegna þess að það er ekki hægt að lækka skatta og fella niður skatta af þeim sem eru með 90 þús. kr. nema að fella þá líka niður af þeim sem eru með 91 þús. eða 92 þús. eða 100 þús. Það er ekki hægt. Annars yrði mönnum refsað fyrir að hafa þúsundkall meira í tekjur. Þetta þýðir að lækka þarf skatta á miklu, miklu stærri hópi en hv. þm. eru að tala um. Þetta er ekkert annað en lýðskrum, herra forseti. (KLM: Hvernig eigum við að gera það?) Þetta er lýðskrum. Það yrði að gera með því að láta þessa skattalækkun deyja út, skattaprósentuna deyja út t.d. til tekna upp að 120 þús. Og auka þannig jaðarskatta, herra forseti? Er það það sem hv. þm. vill, auka jaðarskattana þegar aðilar vinnumarkaðarins benda á að það sé besta leiðin til þess að búa til fátæktargildrur? Nei, herra forseti.

Ég er hins vegar vel til í það, ef hv. nefnd mundi breyta þessari tillögu þannig að skoðaður yrði rekstrargrundvöllur heimilanna í heild, líka þeirra svokölluðu hátekjumanna sem eru að basla við að vinna fyrir fimm manna fjölskyldu af því að þeir eru einir um það. Ég vildi gjarnan að það yrði skoðað. Við mig hefur talað maður í þeirri stöðu. Hann sagðist ekki hafa efni á að fara í bíó og er hátekjumaður.