Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 13:51:31 (464)

2002-10-10 13:51:31# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Þingmálið sem við erum að ræða hér er eins og áður hefur komið fram eitt af fyrstu þingmálum þingflokks Samfylkingarinnar á þessu þingi. Það snýr að því að skipuð verði nefnd til að kanna með hvaða hætti hægt er að endurgreiða láglaunafólki þá skatta sem það greiðir. Það er eðlilegt að þingmenn Samfylkingarinnar leggi þetta fram sem eitt af sínum mikilvægustu málum hér í upphafi þings, á þeim tíma sem hæstv. ríkisstjórn er með allt niður um sig varðandi þingið, hefur ekkert tilbúið og engin mál koma hér inn. Það er í sjálfu sér ágætt að við fáum þá tíma til að ræða okkar mál.

Ég minni einnig á önnur þingmál sem snúa að velverð fólks og snúa beint að pyngju fólks, umræður um verðlag á höfuðborgarsvæðinu gagnvart Norðurlöndunum. Ég minni á þingmál sem ég er 1. flm. að ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar um að kanna verðlag á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Þetta eru þau grundvallaratriði í stefnu okkar sem við vildum ræða hér í upphafi.

Ég ætla á þeim stutta tíma sem ég á hér eftir að ræða um þetta þingmál. Ég vil í byrjun taka fram að segja mætti að við hv. þm. Pétur Blöndal séum sammála um það í grundvallaratriði að fyrirtækin í landinu hafi góð rekstrarskilyrði, skili arði og greiði skatta til ríkisins til að hafa peninga til að jafna lífskjör í landinu. Um þetta erum við vafalaust sammála. (PHB: Og borga há laun.)

Síðan kemur annað atriði sem skilur á milli okkar. Þar erum við algjörlega ósammála. Við þingmenn Samfylkingarinnar teljum að það þurfi að kafa til botns í því hvernig bæta eigi rekstrarskilyrði aldraðra, öryrkja og þeirra sem lág laun hafa í þessu landi.

Við bendum á þá leið sem ódýrust væri fyrir ríkissjóð sem við erum sammála um að þurfi á peningum sínum að halda, en þeir eru misjafnlega góðir þeir skattar sem þar koma. Við teljum með öðrum orðum að sá milljarður sem fólk með undir 90.000 kr. í laun á mánuði greiðir í skatta til ríkisins, af þeim 70 milljörðum sem ríkið innheimtir í tekjuskatt einstaklinga, sé illa fenginn. Við teljum að finna eigi leiðir til að skapa þverpólitíska samstöðu um það hér á Alþingi að finna leið í gegnum skattakerfið til að endurgreiða þessu fólki það í eftiráálagningu sem e.t.v. er best að gera strax. Þetta er grundvallaratriði, herra forseti, sem ég vildi leggja höfuðáherslu á.

Ég fagna því sem hér hefur komið fram, stuðningi Vinstri grænna sem jafnaðarmaðurinn hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti yfir áðan og stuðningi þingflokks Frjálslynda flokksins sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson lýsti yfir áðan. Ég harma hins vegar að aðrir þingflokkar skuli nánast að skila auðu. Ég hef þó sagt að ég er ánægður með að hv. þm. Pétur Blöndal komi hér og taki þátt í umræðunni fyrir hönd Sjálfstfl. þó ég sé hryllilega ósammála honum. Ég er náttúrlega rosalega hissa á að hér hafi þingmenn Framsfl. ekki sést. Þeir skila hér auðu enda má kannski segja að það eigi ekki að krefjast mikils af þeim í þessari umræðu. Þeir eru eins og áður hefur komið fram eins og hálfgert hlutdeildarskírteini í Sjálfstfl. og e.t.v. hefur þá verið talað hér fyrir þeirra munn.

Þetta vildi ég segja í upphafi máls míns. Ég vil bara ítreka, herra forseti, það sem hér hefur komið fram. Mig langar síðan að lesa hér upp úr þinggögnum frá okkur þingmönnum Samfylkingarinnar þar sem fjallað er um afkomutryggingu. Sú lýsing skýrir þetta mál og hvernig staðan hjá þessum þjóðfélagshópi er í dag:

,,Sú staðreynd að meira en helmingur aldraðra er með framfærslueyri undir lágmarkslaunum staðfestir bág kjör allt of stórs hóps aldraðra í íslensku þjóðfélagi. Það segir líka sína sögu að 40% lífeyrisþega hafa óskerta tekjutryggingu. Í skýrslu um kjör öryrkja sem Samfylkingin óskaði eftir frá forsætisráðherra og lögð var fram á Alþingi á síðasta ári kom fram að 43% allra öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóði. Athyglisvert er einnig að 22% ellilífeyrisþega, 5.855 manns, voru með tekjur undir 70 þús. kr. á mánuði á árinu 1999.``

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

,,Frá 1995 ...`` --- þ.e. þegar núv. ríkisstjórnarflokkar tóku við --- ,,... til 1. október 2000 hefur grunnlífeyrir og tekjutrygging hækkað um nálægt 25% en launavísitala hins vegar hækkað frá sama tíma um 41,5%. Þegar litið er á kaupmátt lífeyrisgreiðslna samanborið við lágmarkslaun liggur fyrir að kaupmáttur lífeyrisgreiðslna er langt undir kaupmætti lágmarkslauna verkafólks og hefur munurinn aukist jafnt og þétt, ekki síst eftir að slitið var á tengsl launa og lífeyrisgreiðslna árið 1995.``

Þetta segir margt um það sem gerst hefur í tíð núv. ríkisstjórnarflokka, Framsfl. og Sjálfstfl., í málefnum þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Ég held að þegar hæstv. fjmrh. talar um sólskinsfrumvarpið sitt, sem hefur að geyma tekjuskatt einstaklinga upp á 70 milljarða, lækkun tekjuskatts fyrirtækja upp á 2,2 milljarða frá þessu ári til næsta árs og lækkun eignarskatta upp á 4,4 milljarða, sem ég hef því miður ekki tíma til að fara í gegnum núna en eru í sjálfu sér mjög ósanngjarnir skattar hjá einstaklingum, þá hækkar tekjuskattur einstaklinga um 5 milljarða kr. Það er til þessa sem ég vísa þegar ég segi: Ég held að hæstv. fjmrh. eigi ekki að vera mjög glaður af alla vega einum milljarði af þessum 70 sem þarna eru, blóðpeningum láglaunafólk og illa settir þjóðfélagshópar borga. Að láta sér detta í hug og það skuli enn þann dag í dag, árið 2002, í þjóðfélagi sem við teljum með því besta í heimi hvað lífskjör varðar og sem við stærum okkur af, skuli fólk með undir 90.000 kr. á mánuði greiða þá skatta sem hér eru til umræðu. Í þessu samhengi vil ég benda á að fram hefur komið að 96 einstaklingar höfðu 116 millj. kr. að meðaltali í fjármagnstekjur og borguðu af því 10% fjármagnstekjuskatt.

Herra forseti. Manni finnst stundum eins og maður sé að lesa hérna einhverja vitleysu þegar maður hefur þessar tölur eftir. En þetta hefur komið fram í gögnum frá ríkisskattstjóra.

Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, herra forseti. Það er afar nauðsynlegt að skapa þjóðarsátt um að finna leið fyrir skattfrelsi lægstu launa. Það er ódýrast fyrir ríkissjóð að fara leiðina sem hér er nefnd, eða álíka leið skulum við segja, vegna þess að við erum að sjálfsögðu opin fyrir því ef aðrar betri tillögur koma fram um hvernig eigi að útfæra þetta nánar. Það verður auðvitað vera hlutverk sérfræðinga í skattkerfinu að finna leið að þessu marki sem við höfum sett á stefnuna. Það er grundvallaratriði.

Ég segi, herra forseti, enn og aftur: Við þurfum pólitíska sátt milli stjórnmálaafla hér á Íslandi fyrir leiðinni sem Samfylkingin er hér að tala um, þ.e. að hætta að rukka skatt af lágtekjufólki, af öryrkjum og öldruðum sem hafa lagt grunn að þessu velmektarþjóðfélagi sem við stærum okkur af og lifum í --- fólk sem átti ekki kost á því að greiða lífeyrisgreiðslur á sínum tíma nema hluta starfsævinnar. Hér hefur m.a. verið minnst á lágar lífeyrisgreiðslur kvenna. Þetta eru atriði sem auðvitað þarf að lægfæra.

Ég hef því miður ekki meiri tíma til að fara frekar út í það, herra forseti, en þetta er leið sem ég vona að efh.- og viðskn. fari vel í gegnum og komi með tillögur í þessa veru.