Alþjóðahvalveiðiráðið, Evrópuár öryrkja, rjúpnaveiðitíminn

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:04:17 (482)

2002-10-14 15:04:17# 128. lþ. 9.91 fundur 170#B Alþjóðahvalveiðiráðið, Evrópuár öryrkja, rjúpnaveiðitíminn# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég stend upp til að mótmæla því að hæstv. forsrh. hafi neitað utandagskrárumræðu sem ég bað hann um til að ræða aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar vegna Evrópuárs fatlaðra sem er á næsta ári. Öryrkjabandalagið hefur vakið athygli á því að í heilt ár hafi legið á borði ríkisstjórnarinnar ýmsar tillögur sem Öryrkjabandalagið óskar samstarfs við ríkisstjórnina um í tilefni Evrópuársins en því erindi hefur ekki verið svarað. Tillögurnar sem beðið hafa í heilt ár á borði ríkisstjórnarinnar birtust í síðustu viku í heilsíðuauglýsingu í formi áskorunar til ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í ýmsum málaflokkum. Bendir Öryrkjabandalagið á margvíslegar búsifjar sem öryrkjar hafa orðið fyrir eins og stóraukinn húsnæðiskostnað, vaxandi sjúkrakostnað af ýmsum toga, aukinn símkostnað, niðurskurð á styrkjum til bifreiðakaupa, stóraukna skattheimtu á lífeyrisgreiðslum og að lífeyrisgreiðslur hafi dregist aftur úr lágmarkslaunum og ekki haldið í við launavísitölu.

Þar sem aðgerðir sem lagðar eru til falla undir fjögur ráðuneyti er eðlilegt að hæstv. forsrh. verði til svara í þeirri utandagskrárumræðu sem ég hef óskað eftir, enda er áskoruninni og tillögunum sem liggja fyrir beint til ríkisstjórnar Íslands.

Ég vakti athygli forsrh. á því í morgun að ég mundi taka þetta mál upp utan dagskrár og ég óskaði viðveru hans. Því er það mjög sérkennilegt og vekur furðu að hann skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu. Hann sýnir fötluðum fullkomna lítilsvirðingu með því. Ég hlýt að mótmæla því að forsrh. víki sér undan svona umræðu og vísi á fagráðherrana fjóra sem þetta mál heyrir undir. Það er orðið æðiáberandi hve hæstv. forsrh. reynir ávallt að víkja sér undan umræðum sem snerta kjör og aðbúnað fólks eins og lífeyrisþega og tekjulítilla hópa, en á síðasta ári neitaði hann mér um umræðu um fátækt á Íslandi sem er til vansa fyrir forsrh. með líkum hætti og það er til vansa fyrir hæstv. forsrh. að neita hér að ræða málefni öryrkja.