Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:02:14 (533)

2002-10-15 14:02:14# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þegar miklar veiðiheimildir safnast á fáar hendur fylgir því jafnan samþjöppun fjármagns. Samþjöppun fjármagns í litlu landi og í fremur fábreyttu hagkerfi er mjög alvarlegt mál. Aukin auðsöfnun og misskipting er ekki það sem íslensk þjóð þarf helst á að halda.

Hin mikla samþjöppun veiðiheimilda á fáar hendur er líka óæskileg vegna þess að hún stuðlar að aukinni einhæfni í atvinnulífi. Við vitum öll að veiðigeta stærstu skipanna í fiskveiðiflotanum er svo mikil að tiltölulega fáir togarar gætu í raun dregið árlegan heildarafla okkar að landi. En það er hvorki spennandi framtíðarsýn né vonandi ýkja nálæg en engu að síður verðum við að gefa þeirri hlið málsins einhvern gaum. Frjálst framsal veiðiheimildanna stuðlar nefnilega ekki aðeins að því að þær safnist á fáar hendur heldur leiðir það einnig til þess að veiðiheimildir færast yfir á togarana frá smábátunumm og frá vertíðarbátunum.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggjum áherslu á fjölbreytni í atvinnulífi og lítum þessa þróun alvarlegum augum, ekki síst af þeim sökum. Víða um land byggist afkoma heilla byggðarlaga á smábátaútgerð að miklu eða nær öllu leyti. Slíkar veiðar skapa mikil verðmæti, bæði beint og óbeint, þær skapa atvinnu í landi auk þess sem þær byggja á mun vistvænni veiðarfærum en veiðar stærri skipanna. Síðast en ekki síst er báta- og smábátaútgerðin hluti af atvinnumenningu landsins og þá menningu viljum við standa vörð um. Hún er hluti af ímynd Íslands og sjálfsmynd þjóðarinnar.