Skipamælingar

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 16:57:01 (565)

2002-10-15 16:57:01# 128. lþ. 10.8 fundur 158. mál: #A skipamælingar# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[16:57]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem mig langar til að spyrja um er þetta: Í 2. mgr. 1. gr. frv. er sagt að hvert skip með skráningarlengd allt að 24 metrum skuli mælt og tonnatala þess reiknuð samkvæmt reglum sem ráðherra setur að tillögum Siglingastofnunar Íslands. Þetta gefur mér tilefni til að spyrja um það hvort fyrirhugaðar séu einhverjar breytingar á mælingunum. Svo virðist sem hægt sé að breyta mælingunum eingöngu með útgáfu reglugerðar, þ.e. samkvæmt því fyrirkomulagi sem frv. gerir ráð fyrir. Ég veit að Siglingastofnun hefur haldið nokkra fundi með aðilum í landinu vegna hugmynda um breytingar á skipamælingum. Ég þekki reyndar ekki hvaða hugmyndir eru um breytingarnar og ætla ekki að setja mig á neinn hátt á móti því að einhverjar breytingar verði, en ég spyr hæstv. ráðherra: Eru þær breytingar sem hugsanlega eru á leiðinni ekki líklegar til þess að raska hinum ýmsu reglum sem hv. Alþingi hefur sett hvað varðar stjórn fiskveiða og úthlutun veiðiheimilda miðað við stærðir skipa ef af þeim verður? Eða hefur hugmyndum um breytingar kannski bara verið ýtt til hliðar og verður ekkert af þeim?

Ég tel ástæðu til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að breytingar af þessu tagi komi til greina og líka það, og vil leggja það inn um leið, hvort þá sé ekki ástæða til að ræða það á hv. Alþingi hvort reglur um mælingar skipa sem eru notaðar í þeim tilgangi sem ég var að tala um áðan, þ.e. vegna ýmissa ákvæða um stjórn fiskveiða, verði ekki að vera allt aðrar og eitthvað sem stendur til frambúðar. Það getur ekki breyst með einhverjum reglugerðum úr ráðuneytinu.