Úrræði fyrir ungt hreyfihamlað fólk

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:44:18 (604)

2002-10-16 14:44:18# 128. lþ. 12.5 fundur 78. mál: #A úrræði fyrir ungt hreyfihamlað fólk# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil taka fram að þótt ég hafi sagt að hér væri ekki um skilgreint forgangsverkefni að ræða, sem er ekki, er ekki þar með sagt að ráðuneytið hafi ekki hugað að þessum málum. Mikil umræða hefur farið fram innan ráðuneytisins um einmitt þetta mál. Síðast ræddum við það í morgun í viðtalstíma mínum á fundi með fagfólki þó að það væri ekki tengt þessari fyrirspurn. Ég tek mjög eindregið undir að hér er um mjög alvarlegt og áríðandi mál að ræða. En ég vil ekki draga fjöður yfir það að við erum ekki enn búin að finna hin endanlegu úrræði sem passa þessum hópi. Ég vona sannarlega að við getum komist að niðurstöðu. Ég undirstrika mikilvægi þessa máls.

Ég var spurður að því hvort Vífilsstaðir gætu hentað og hvaða áform væru um það húsnæði. Við höfum verið að skoða Vífilsstaði vegna þeirrar miklu þarfar sem er fyrir hjúkrunarrými fyrir aldraða. Fram hafa komið tölur um að Vífilsstaðir henti mjög vel til þess þannig að við erum með það í sjálfu sér sem forgangsverkefni hjá okkur. Þar að auki höfum við horft á 19 rúma biðdeild á Vífilsstöðum sem er þar í sérbyggingu en eitt af forgangsverkefnunum hjá okkur er að koma aftur af stað starfsemi á Vífilsstöðum og í því efni höfum við m.a. horft á vanda Landspítalans -- háskólasjúkrahúss.