Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:48:02 (631)

2002-10-16 15:48:02# 128. lþ. 12.9 fundur 174. mál: #A Orkubú Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:48]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég skil það mjög vel að hv. þm. hefði viljað fá afdráttarlausari svör frá mér. En miðað við hvernig málið er vaxið get ég því miður ekki sagt allt og ekki talað mjög skýrt. Þetta mál er, eins og fram kom í fyrri ræðu minni, í ákveðnum farvegi. Þá er ég að tala um það sem snýr að því að hugsanlega sameina þessi fyrirtæki í orkugeiranum, þ.e. Rarik, Norðurorku og Orkubú Vestfjarða.

Við verðum að hafa það í huga að áður en ríkið kaupir Orkubú Vestfjarða er í gangi ákveðið ferli sem ég er að vinna að í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar, þ.e. að athuga hagkvæmni þess að sameina Rarik og Norðurorku. Að því er ég að vinna vegna ákvörðunar sem tekin var í ríkisstjórn. Síðan bætist Orkubú Vestfjarða við og ég trúi ekki að hv. þm. sé að segja að henni finnist verra ef þessi þrjú fyrirtæki yrðu sameinuð og að höfuðstöðvarnar yrðu á Akureyri fremur en að þær væru í Reykjavík? Á ég að skilja hana þannig? Mér þykir mjög slæmt ef landsbyggðarmenn hugsa þannig, en það mátti nánast skilja hana þannig.

Að sjálfsögðu verður staðið við það samkomulag sem gert var við sveitarfélögin á Vestfjörðum þegar ríkið keypti þeirra hlut. Það hef ég margoft ítrekað þannig að menn þurfa ekki að tala sig hása út af því.

Það hefur aldrei verið talað um það að selja Rarik á markaði. Það hefur hins vegar verið talað um að breyta félaginu í hlutafélag og það er óútkljáð mál. En þingið er nú rétt að byrja og við skulum sjá til hvernig það mun ganga.

Menn segja að það hafi verið vonbrigði að unnið var verðmat á þessum fyrirtækjum. Ja, hvernig á að sameina fyrirtæki öðruvísi en að unnið sé verðmat? Það er bara hluti af þessu máli. Verðmatið liggur fyrir. Það er ekki hægt að tala opinberlega um það, og eins og ég sagði: Málið er á viðkvæmu stigi en ég tel þó að það sé í eðlilegum farvegi.