Búnaðarlög

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 14:55:10 (739)

2002-10-29 14:55:10# 128. lþ. 15.8 fundur 241. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir margt það sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum í umræðunni um þetta mikilvæga mál. Ég tek undir ábendingar hv. 2. þm. Vestf., Karls V. Matthíassonar, um málfræðina í málinu. Það þarf að skoða hana vel þannig að þetta sé eitthvað sem lætur vel í munni. Hann bendir á að þarna sé verið að þýða ,,resource``. Það er náttúrlega komið af latneska orðinu fons sem er lind. En ég tek sem sagt undir það sem hv. þm. Karl V. Matthíasson sagði í því.

Hv. þm. nefnir einnig forustufé og ég vil benda á fínullarfé sem hefur verið haldið hér á landi, sérstakan íslenskan stofn með sérstaka eiginleika eins og ég veit að hæstv. landbrh. þekkir. Það var til skamms tíma vistað fyrir austan, á Skriðuklaustri. Ég lít þannig á að vegna legu Íslands geti gríðarmikil verðmæti verið fólgin í erfðaefni íslenska lífríkisins. Ísland er einangrað land, umlukið hafi, og hér hafa stofnar þraukað af og það eru verðmæti í þessu. Það má auðvitað nefna þá umræðu sem hefur orðið um íslensku mjólkina og aðrar þjóðir virðast vera farnar að átta sig á því að þar geti verið gríðarmikil verðmæti fólgin. Ég held því að þetta sé þarft mál sem hæstv. landbrh. hreyfir hér og set þessar ábendingar inn í málið.