Heilsugæslulæknar á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 13:39:56 (759)

2002-10-30 13:39:56# 128. lþ. 17.91 fundur 195#B heilsugæslulæknar á Suðurnesjum# (aths. um störf þingsins), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 128. lþ.

[13:39]

Ásta Möller:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að í gær, á fundi með þingflokksformönnum, var tilkynnt um að það yrði umræða um stöðu heilsugæslumála á morgun, fimmtudag. Það er alveg ljóst að ósk um utandagskrárumræðu snerist um að rætt yrði almennt um stöðu heilsugæslumála. Það sem hv. þm. Kristján Pálsson er núna að benda á og hefur máls á í upphafi þingfundar varðar mál sem eingöngu snýr að heimabæ hans, í hans kjördæmi.

Það er mjög eðlilegt að þingmaðurinn taki upp áhyggjur síns fólks og spyrji ráðherra um hver staða þeirra mála er sem ráðast munu eftir tvo daga. Það er ástæða til að taka þetta upp á þinginu. Ég geri engar athugasemdir við að ráðherra fái tækifæri til að útskýra hér og nú hvernig málin standa.

Mér er kunnugt um að það er töluverð gerjun í þessum málum einmitt þessa stundina. Þess vegna er ástæða er til að róa fólk og gefa því réttar upplýsingar. Á morgun er hálfur sólarhringur fram að þeim tíma að heilsugæslulæknar ganga úr störfum sínum.