Hjúkrunarrými í Reykjavík

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:15:22 (768)

2002-10-30 14:15:22# 128. lþ. 18.1 fundur 109. mál: #A hjúkrunarrými í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:15]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn til heilbrrh. Sannleikurinn er sá að vandinn er einna mestur hér í Reykjavík hvað vistunarþörf fyrir aldraða sjúklinga áhrærir.

Eins og fram hefur komið eru 258 manns í Reykjavík í brýnni eða mjög brýnni þörf og fer fjölgandi. Hins vegar vekur það athygli mína í svörum hæstv. heilbrrh. að aðilar hafi sóst eftir að byggja hjúkrunarrými en hins vegar virðist skorta stefnumótun eða framtíðarsýn í ráðuneytinu til að taka á málunum. Hvað vill ráðuneytið sjálft? Hvernig ætlar það að halda á málum? Hvað leggur það til?

Það er ljóst að breytingar, t.d. á Vífilsstaðaspítala sem munu koma til umræðu á eftir, eru bara plástur á þann vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Í annan stað vildi ég geta þess að fyrir liggur vistunarmat fyrir 178 manns sem þurfa að komast á vistheimili og eru í mjög brýnni eða brýnni þörf. Hver er staða þeirra aðila?