Lyfjaávísanir lækna

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:21:24 (771)

2002-10-30 14:21:24# 128. lþ. 18.2 fundur 122. mál: #A lyfjaávísanir lækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrr á þessu ári var heilmikil umræða, bæði hér á Alþingi og í fjölmiðlum, um neyslu morfíns og morfíntengdra lyfja, um að neyslan hefði stóraukist á síðari árum. Í kjölfar þess hefur komið fram að þeim hafi fjölgað sem látið hafa lífið vegna of stórra lyfjaskammta. Fram hefur komið að SÁÁ hefði afhent landlæknisembættinu nöfn fimm lækna sem sagðir voru hafa ávísað ítrekað og ótæpilega morfíni eða tengdum lyfjum til fíkla og þeirra sem nota sterk efni, m.a. sprauta sig með þeim.

Í svari hæstv. heilbrrh. við fyrirspurn minni um þessi mál á Alþingi kom fram að á síðustu tveimur árum hafi landlæknisembættið ítrekað haft til skoðunar mál 10 lækna vegna ávísana á ávana- og fíknilyf. Þar af hafi nokkrir verið oftar en einu sinni í ítarlegri athugun hjá embættinu.

Hæstv. ráðherra sagði einnig að hann hefði lagt til að heimild landlæknis til varðveislu viðkvæmra persónuupplýsinga yrði skoðuð sérstaklega og sú endurskoðun færi fram í samráði við Persónuvernd og innan ramma laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Fróðlegt væri að fá að heyra hvað sú athugun hefði leitt í ljós. Þá sagði hæstv. ráðherra að hann hefði í apríl, þegar umræðan fór fram, ritað Lyfjastofnun og landlæknisembættinu bréf þar sem hann hefði farið fram á að tekið yrði upp hert eftirlit með óeðlilegum lyfjaávísunum lækna, verklag Lyfjastofnunar og landlæknisembættis yrði skoðað sérstaklega og einnig möguleiki á að taka upp lyfjakort. Þessari athugun átti að ósk ráðherra að ljúka 24. apríl sl. vor. Sú tímaáætlun stóðst ekki. En nú liggja fyrir tillögur til úrbóta sem ráðherra mun væntanlega fara yfir hér á eftir.

Virðulegi forseti. Það er alls ekki svo að ótæpileg ávísun lækna á ávanabindand lyf sé algeng innan læknastéttarinnar. Hér var og er örugglega um örfáa einstaklinga að ræða. Engu að síður krefst alvarleiki málsins þess að brugðist verði við af hörku. Hæstv. ráðherra hét því í umræðu á Alþingi sl. vor að leita allra ráða til að stemma stigu við ótæpilegum ávísunum á morfín eða tengd lyf og efla landlæknisembættið sérstaklega til að vinna að þessu verkefni. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hvað leiddi rannsókn landlæknisembættisins í ljós um meintar óeðlilegar ávísanir lækna á ávanabindandi lyf?

Hefur eftirlit með lyfjaávísunum lækna verið hert? Ef svo er, á hvern hátt?