Reglugerð um landlæknisembættið

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:42:03 (780)

2002-10-30 14:42:03# 128. lþ. 18.3 fundur 125. mál: #A reglugerð um landlæknisembættið# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vilja hans til að taka til endurskoðunar lög um heilbrigðisþjónustuna og síðan þau ákvæði sem gilda um landlækni og störf landlæknisembættisins. Ég vek hins vegar athygli á því enn og aftur að þessi reglugerð er síðan 1973. Síðan þá hafa orðið miklar breytingar á starfsemi landlæknisembættisins. Reglugerðin sem fjallar um þessi störf, ef maður flettir henni upp til að skoða hvert er hlutverk landlæknis og landlæknisembættisins, er ekki í nokkru einasta samræmi við það sem maður sér ef kafað er dýpra ofan í málin.

Auðvitað er það þannig, eins og hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson nefndi hér áðan, enda löglærður maður, að þetta er ekki eina tilvikið þar sem reglugerðir eru ekki í samræmi við veruleikann, ekki einu sinni þann lagaramma sem við búum við í dag í einstökum málaflokkum. Þetta er ekki einskorðað við heilbrrn., síður en svo. Ég viðurkenni að ég var einfaldlega að skoða sérstaklega og fara yfir, í tengslum við störf í fjárln. og úthlutun fjármagns til landlæknisembættisins, hvernig standa ætti að varðandi einstaka þætti í starfi embættisins. Þá komst ég að raun um að reglugerðin er ekki í nokkru samræmi við þá starfsemi sem þar fer fram. Því miður virðist hið sama á ferðinni í mörgum öðrum málaflokkum.

Ég tek undir að mikil þörf er á því að við sinnum eftirlitshlutverki okkar í þessum efnum.