Daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:46:32 (782)

2002-10-30 14:46:32# 128. lþ. 18.4 fundur 126. mál: #A daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að flest ef ekki öll dvalar- og hjúkrunarheimili landsins sem rekin eru á daggjöldum glíma við gífurlegan rekstrarvanda. Sum þeirra eru rekin á yfirdrætti og/eða framlögum þeirra sveitarfélaga sem standa að rekstrinum. Mörg þeirra hafa búið við þennan rekstrarvanda í nokkur ár og fengið framlög frá viðkomandi sveitarfélögum til að mæta hallanum.

Á undanförnum árum hefur ítrekað verið farið fram á leiðréttingu daggjalda en lítið hefur gerst í þeim efnum. Þó að vandinn hafi verið þekktur í upphafi þessa fjárlagaárs og sé að hluta bættur á fjáraukalögum sést það ekki í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár. Jafnvel mætti segja að um lækkun á daggjöldum sé að ræða.

Fyrir stuttu greindu fjölmiðlar frá því að nú þegar stefndi í að 1 milljarð vantaði til rekstrar þessara stofnana. Þeir fjármunir sem eru í frv. til fjáraukalaga duga því hvergi nærri til að mæta vandanum. Ég fullyrði að á þessum stofnunum er fyllstu sparsemi gætt. Menn hafa árum saman leitað leiða til að hagræða í rekstri, jafnvel svo að lengra verður ekki gengið í þeim efnum án þess að skerða verulega þjónustuna við fólkið sem þar dvelur. Auk þess er alveg ljóst að mörg sveitarfélaganna, sérstaklega á landsbyggðinni, geta engan veginn staðið undir þeim halla sem skapast hefur af því að daggjöldin eru úr samhengi við raunverulega þörf. Það hlýtur að stefna í gjaldþrot hjá hluta daggjaldastofnana verði ekki nú þegar gripið til ráðstafana. Framlög á fjáraukalögum duga skammt ef ekki kemur til leiðrétting á þeim grunni sem daggjöldin byggja á. Ekki verður það til leysa mál þeirra fjölmörgu öldruðu sem bíða eftir plássi á dvalar- og hjúkrunarheimilum eins og fram kom áðan. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

Hver er rekstrarstaða þeirra dvalar- og hjúkrunarheimila sem eru á daggjöldum miðað við fyrstu átta mánuði þessa árs? Ef um hallarekstur er að ræða, verður hann bættur í fjáraukalögum?

Eru fyrirhugaðar breytingar á greiðslu daggjalda til þessara stofnana? Ef svo er, hverjar eru þær og hvenær má vænta þeirra?