Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:44:33 (847)

2002-10-31 14:44:33# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., ÖHJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Örlygur Hnefill Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykn. Hjálmar Árnason telur að hér fyrr í umræðunni hafi ekki verið rætt um meginmál þeirra laga sem frv. sem hér liggur fyrir á að breyta. Ég geri athugasemd við það. Í máli mínu benti ég á meginmarkmið laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, um að treysta atvinnu og byggð í landinu. Ég benti einnig á að efni þessa frv. sem hér liggur fyrir um að 500 lestir af óslægðum botnfiski sem ráðherra hefur til ráðstöfunar verði flutt milli ára, væri hið besta mál. Ástæðan er sú að hjálpa þeim sjávarplássum sem lent hafa í vanda. Þess vegna verður þessi umræða. Það er meginmál þessa máls.

Ég tek undir með hv. þm. að þorskeldi er hið besta mál og allt sem hann segir um það og þá atvinnusköpun sem af því leiðir er rétt. Ég get tekið heils hugar undir það. En það er ekkert óeðlilegt við það þó að þessi umræða fari út í það að ræða stjórnkerfi fiskveiða og þær afleiðingar sem það hefur haft. Ég er viss um að þeir tugir þúsunda manna sem eiga eignir sem hafa verið að rýrna, m.a. út af þessu kvótakerfi, úti um allt land, telja að umræða um sjávarútvegsmál sé fremri og ofar en umræða um þorskeldi. En ég er viss um að þeir fagna því ef þorskeldi styrkir eignir þeirra og styrkir byggðir landsins.