Uppbygging sjúkrahótela

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 15:23:37 (861)

2002-10-31 15:23:37# 128. lþ. 19.8 fundur 25. mál: #A uppbygging sjúkrahótela# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kem upp til þess að lýsa stuðningi við þessa tillögu. Ég held að hún sé afar þörf og geti á margan hátt orðið til þess að kostnaður sjúklinga yrði minni en ella væri, auk þess sem aðstaða sjúkra væri betri og það í mörgum tilfellum tryggt að fólk gæti búið við öryggi sem það ella ætti ekki kost á, hvorki á hótelum eða með því að gista í heimahúsum. Það er nú svo að sjúkt fólk, þó það þurfi ekki beinlínis að liggja á spítala, þarf auðvitað að búa við ákveðið öryggi að því leyti til að það geti leitað aðstoðar ef á þarf að halda. Þess vegna held ég að verið sé að hreyfa við mjög brýnu og þörfu máli þegar hér er lagt til að byggja upp sjúkrahótel.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að uppbygging slíkra sjúkrahótela geti orðið til þess að spara almennt kostnað í heilbrigðiskerfinu því þegar fólk á ekki um neitt að velja þá auðvitað sækir það um, þ.e. ef það telur sig ekki öruggt, að fá að dvelja lengur á sjúkrahúsunum en ella þyrfti. Þess vegna held ég að sú till. til þál. sem hér er flutt um að fela heilbrrh. að beita sér fyrir uppbyggingu sjúkrahótela sé mjög þörf og bæði sjúklingum og samfélaginu til hagsbóta frá öllum hliðum séð, bæði hvað varðar aðstöðu sjúkra og kostnað viðkomandi og ríkisins. Þess vegna mæli ég með því að þessi tillaga fái góða umfjöllun og verði afgreidd hér.