Rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 15:42:40 (864)

2002-10-31 15:42:40# 128. lþ. 19.11 fundur 254. mál: #A rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[15:42]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um að skipa nefnd til að kanna rýrnun á eignum íbúa á landsbyggðinni er í sjálfu sér ekkert fagnaðarefni. Það væri betra ef málum væri þannig skipað að jafnræði ríkti um landið hvað varðar verðgildi hliðstæðra eigna, eigna sem eiga jú að nýtast íbúunum jafnt, óháð því hvar þeir búa. Þetta snertir bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði og önnur mannvirki. Íbúðarhúsnæðisþörf er meðal frumþarfa fólks. Þörf fyrir atvinnuhúsnæði og önnur mannvirki telst líka til þeirra og það húsnæði ætti að hafa sama verðgildi fyrir þjóðina, óháð því hvar það er staðsett.

Það er hins vegar hárrétt, eins og kemur fram í greinargerð með þessari þáltill. frá hv. flm., Örlygi Hnefli Jónssyni, að það er því miður ekki svo. Það er náttúrlega ljóst að sú þjóðfélagsgerð sem er að mótast hér, einmitt á grundvelli margra lagasetninga af hálfu Alþingis, leiðir til misréttis milli íbúa landsins eftir því hvar þeir búa.

[15:45]

Það er dapurlegt að þurfa að viðurkenna að meginástæður misréttisins eru lagasetningar Alþingis sjálfs og framkvæmd þeirra. Lögin um stjórn fiskveiða hafa verið nefnd. Við getum líka horft á hvað er að gerast með stoðþjónustuna í hinum dreifðu byggðum. Við getum bent á það sem nú er að gerast, þ.e. sölu á ríkisbönkunum, bönkum sem stofnað var til á sínum tíma til að veita öfluga og góða þjónustu við einstaklinga og atvinnulíf um allt land. Nú er verið að selja þá gjörsamlega kvaðalaust, án nokkurra kvaða um þjónustuskyldu við íbúa landsins.

Þjónustustofnanir hafa verið seldar þeim sem hafa að meginmarkmiði að hámarka persónulegan arð af því fjármagni sem þeir binda í þessum stofnunum en ekki að geta sem best þjónað atvinnulífi og einstaklingum vítt og breitt um landið. Við sjáum þetta gerast í dag. Við sáum þetta gerast í síðustu viku. Það er alveg ljóst að breytingarnar sem þarna eru á ferðinni munu ekki styrkja eignastöðu fólks um hinar dreifðu byggðir eða úti um land. Við munum örugglega horfa upp á að þessar þjónustustofnanir skeri niður og fækki útibúum sínum og þjónustustofnunum vítt og breitt um landið. Því mun fylgja að fólki finnst atvinna sín og búseta óöruggari en áður og þannig ber allt að sama brunni.

Því miður, herra forseti, ráðast flestar þær stjórnvaldsaðgerðir sem í gangi eru núna að fótstalli þess samfélags sem við höfum byggt upp. Síðan á að hlaupa til með einstökum plástursaðgerðum til að lina sárustu kvölina á einstaka stöðum. Það er stefna stjórnvalda eins og hún snýr að fólkinu. Við vorum nú síðast að ræða um hvernig ætti að úthluta 500 tonna byggðakvóta til þeirra sjávarbyggða sem væru verst staddar. Til þessa ráðs er gripið í staðinn fyrir að taka á fiskveiðistjórnarkerfinu sjálfu þannig að það mundi í grunninn byggjast á jafnræðisrétti þegnanna úti um allt land. Það hefði skilað árangri en plástursaðgerðirnar eru takmarkaðar skammtímalausnir og hafa í sjálfu sér engin heildaráhrif á það sem er að gerast.

Við getum horft á hvernig þetta spinnur síðan utan á sig. Greiddar hafa verið vaxtabætur til þeirra sem eru að fjárfesta í íbúðarhúsnæði og taka til þess lán. Greiddar eru vaxtabætur ef laun viðkomandi eru innan ákveðins hámarks og sömuleiðis eignir. Meginþorri almenns launafólks og almennings er á því bili að hafa aðgang að vaxtabótum. En þær vaxtabætur eru einmitt háðar verðgildi eða kaupverði viðkomandi eignar. Þetta eru greiðslur sem ríkið leggur inn í þetta púkk. Það gefur augaleið að íbúð getur kostað 15 eða 20 millj. hér en kostar kannski ekki nema 10--15 millj. úti á landi, jafnvel enn þá minna. Húsin hafa sama notagildi, sami byggingarkostnaður og annað. En til að nýta hliðstæða íbúð á höfuðborgarsvæðinu er ríkið að greiða með henni háar upphæðir í formi vaxtabóta. Auðvitað veitir fólki ekki af þessu sem kaupa íbúðir á þessu ofurháa verði. Ég geri mér grein fyrir því að þeim veitir ekki af. Þeir sem kaupa íbúðir á þessa háa verði fá sig alveg fullsadda af því. Það er alveg klárt. Þeir mega ekki við miklu. En ríkið er samt með þessum hætti að taka þátt í þessari sveiflu. Það ýtir undir hana.

Herra forseti. Við getum líka bent á hina hliðina, þ.e. hina jákvæðu sem einstaklingar og atvinnufyrirtæki ættu að huga að í þessari stöðu, þ.e. hvaða sóknarmöguleikar eru fyrir fólk til að sækja út af stórhöfuðborgarsvæðinu í ódýrara íbúðarhúsnæði og oft í betra nágrannasamfélag. Fyrir atvinnufyrirtækin kann líka að vera um betri aðbúnað og minni húsnæðiskostnað að ræða. Í þeirri stöðu eru einnig sóknarfæri sé litið á málið frá þeirri hlið.

Herra forseti. Hið mikilvægasta í þessu öllu er að hinn almenni grunnur samfélagsins, stoðir búsetu og atvinnulífs í landinu öllu sé jafn og hann sé tryggður. Þá munu eignir einstaklinga og fyrirtækja a.m.k. verða réttlátari en nú er. Þessi tillaga hv. þm. vekur athygli á því misrétti sem við öll sjáum að er í gangi.