Afdrif þingsályktana

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:19:07 (988)

2002-11-04 15:19:07# 128. lþ. 21.1 fundur 207#B afdrif þingsályktana# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er afskaplega ánægjulegt þegar tillögur okkar þingmanna ná fram að ganga á hv. Alþingi en staðreyndin er sú að þær tillögur lenda ekki alltaf í ætluðu ferli né ná þær fram að ganga. Það, herra forseti, er óþolandi staða og enn þá verra er að við vitum ekki um afdrif þeirra og höfum engin tækifæri til þess önnur en fyrirspurnir.

Vegna fyrirspurnar Karls V. Matthíassonar áðan og orðaskipta hans við hæstv. forsrh. þá hlýt ég að minna á mjög góða tillögu sem flutt var fyrir nokkrum árum um fjármálafræðslu í skólum, um að kenna ungu fólki hvað felist í ábyrgð og uppáskrift lána, fara með greiðslukort og annað slíkt og að gera áætlanir um fjármál sín. Sú tillaga var flutt einmitt í tilefni af auknu fjárnámi hjá ungum einstaklingum og fékk víðtækan stuðning á Alþingi. Hún hefur aldrei náð fram að ganga.

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. forsrh. er í tilefni af því að fyrir tveimur árum áttum við orðastað hér um það að taka saman og gefa út þær ályktanir sem hér hafa verið fluttar og fjalla um afdrif þeirra. Við vorum sammála um að mikilvægt væri bæði að gefa tillögurnar út og jafnframt að kanna hvernig brugðist hafi verið við fyrirmælum Alþingis til framkvæmdarvaldsins. Ég er vonsvikin yfir því að kjörtímabilinu sé að ljúka án þess að þessum málum hafi verið komið í lag og ég spyr: Hvað tefur?