Áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 16:03:13 (1007)

2002-11-04 16:03:13# 128. lþ. 21.94 fundur 215#B áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[16:03]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Miklar breytingar hafa verið gerðar á íslenska skattkerfinu á undanförnum árum, skatthlutföll hafa verið lækkuð sem hefur leitt af sér aukna atvinnuþátttöku hjá einstaklingum og stuðlað að eflingu atvinnulífsins. Afleiðing þessa hefur verið að hagvöxtur hefur aukist og lífskjör í landinu stórbatnað. Og kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hafa aukist yfir 30%, þ.e. eftir skatta.

Mikið hefur verið rætt um fjölþrepakerfi í tekjuskattinum. Til að halda því til haga var árið 1993 tekinn upp skattur á hærri tekjur. Það sem skiptir hins vegar máli er samspil persónuafsláttar og skatthlutfallsins, þar sem einstaklingurinn greiðir eingöngu skatt af þeim tekjum sem fara umfram tiltekið lágmark sem nefnt er skattleysismörk. Þetta veldur því að tekjuskattskerfið er í reynd fjölþrepakerfi með óendanlega mörgum þrepum. Sem dæmi af 150 þús. kr. tekjum greiðir viðkomandi 19,7% í skatt. Og af 300 þús. kr. tekjum er greitt 31,6% í skatt.

Þá hafa skattar fyrirtækja verið lækkaðir verulega, eða frá 51% árið 1990 niður í 18%, sem bætir samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs verulega auk þess sem tekjur ríkissjóðs hafa farið vaxandi.

Þá hafa eignarskattar einstaklinga og fyrirtækja verið lækkaðir um meira en helming, þ.e. eignarskattar hafa lækkað um 1,2% í 0,6% og sérstakur eignarskattur felldur út og er vægi ellilífeyrisþega þar mikið, eða um þriðjungur.

Þá hafa ýmis sveitarfélög afnumið fasteignaskatta að hluta eða alveg hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum.

Þá má ekki gleyma að halda til haga skattfrádrætti vegna viðbótarlífeyrissjóðsgjalda úr 4% í 8% af launum. Einnig má nefna barnabætur, 2 milljarða í aukningu barnabóta. Allar þessar breytingar munu skila öflugra atvinnulífi og betri afkomu heimilanna.