Ójafnvægi í byggðamálum

Þriðjudaginn 05. nóvember 2002, kl. 15:31:09 (1061)

2002-11-05 15:31:09# 128. lþ. 22.8 fundur 29. mál: #A ójafnvægi í byggðamálum# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég tek til máls um þessa tillögu, um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum, sem hljóðar upp á það að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir Alþingi aðgerðaáætlun sem hafi það að markmiði að draga úr fyrirsjáanlegu ójafnvægi í byggðamálum.

Virðulegur forseti. Það mun koma að því í ræðu minni að ég beini fyrirspurn til hæstv. byggðamálaráðherra, ég vona að byggðamálaráðherra sé í húsinu áfram meðan verið er að fjalla um málið. Veit forseti hvernig sú staða er?

(Forseti (ÁSJ): Hæstv. iðn.- og viðskrh. er í húsinu, örugglega hér í hliðarsal, og hlustar áreiðanlega á ræðu þingmannsins.)

Það er nefnilega það, þakka þér fyrir herra forseti.

Hver er ástæðan fyrir því, virðulegur forseti, að þessi þáltill. er flutt? Svarið er að í stefnu íslenska ríkisins í byggðamálum vantar festu. Það sést best á því að Vestfirðingar svöruðu byggðatillögum ríkisstjórnarinnar með eigin tillögum sem eru metnaðarfullar og krafan er í rauninni sú frá þeim að ríkisstjórnin geri þær að sínum. Þó að hér séu nefndar sérstaklega tillögur sem varða Vestfirði, þá snýr tillaga okkar flutningsmanna í raun að öllu landinu. Í mínum huga er staðan sú að frumkvæði heimamanna er að sjálfsögðu og hefur alltaf verið og mun verða mesti drifkraftur á bak við eflingu byggðanna.

Aðgerðir í samgöngumálum er lykill að bættri stöðu byggða. Ef við lítum til afkomumöguleika tengda sjávarfangi og landbúnaði í dreifðum byggðum þá eru samgöngur lykillinn að nýjum tækifærum. Því er hugmynd mín sú að hafið verði sérstakt átak með skipulagðri fjögurra ára áætlun um að ljúka meginsamgönguleiðum til höfuðborgarsvæðisins. Nauðsyn er að sérstaklega verði sett fremst í forgangsröð að hafa opnar öruggar leiðir allt árið til og frá öllum landshlutum og þá ekki síst frá sunnanverðum Vestfjörðum, sem búa við hvað mesta lokun af völdum veðurfars, snjóa. Að koma afurðum daglega á markað frá gjöfulum sjávarbyggðum eftir vegakerfi sem er tryggt með opnum vegum allt árið er nauðsyn. Lagður hefur verið grunnur að verulegum byggðaaðgerðum á Austfjörðum með stóriðjuframkvæmdum og á Norður- og Austurlandi með jarðgangagerð, sem eru framkvæmdir til margra ára, og ríkisvaldið hefur lagt áherslu á Eyjafjarðarsvæðið.

Vissulega er það gott ef úr rætist á nefndum svæðum. En eftir stendur krafa um kröftugar aðgerðir í Norðvesturkjördæmi, krafa um auknar aðgerðir varðandi framhaldsmenntun, aukið atvinnufrelsi, afmarkaðar aðgerðir í samgöngumálum, eins og sagði fyrr í ræðu minni.

Ég spyr hæstv. byggðamálaráðherra varðandi varanlega vegagerð í Norðvesturkjördæmi: Til hvaða mótvægisaðgerða ætlar hæstv. ráðherra að grípa? Hæstv. ráðherra sagði í andsvari við ræðu hv. 1. flm. tillögunnar að hún vildi taka sérstaklega á málum Vestfirðinga. Þá spyr ég hvort hæstv. ráðherra geti upplýst á hvern hátt hún muni nálgast málið.

Ég geri mér það ljóst, virðulegur forseti, að úrlausn mála er ekki aðeins á borði hæstv. byggðamálaráðherra heldur allrar ríkisstjórnarinnar. En ég get hvergi, virðulegur forseti, fest hendur á að einhver úrræði séu komin í gang. Þó að ég þrælleiti í fjárlögum og fari yfir fjárlagagerðina þá sé ég ekki að neitt sé í gangi til að bregðast við því sem þessi tillaga, sem við flytjum hér sameiginlega, hv. þm. Jóhann Ársælsson, Karl V. Matthíasson og sá sem hér stendur --- þá sé ég ekkert í gangi til þess að bregðast við því ástandi sem er til að mynda á Vestfjörðum, á Norðvesturlandi og í hinum dreifðu byggðum á Vesturlandi.

Þessu vildi ég beina til hæstv. ráðherra, virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að halda langa tölu um tillöguna vegna þess að hún er í skýrt afmörkuðu máli, hnitmiðuð til þess að auðvelda stjórnvöldum að taka tillöguna upp og gera hana að sinni.