Norðlingaölduveita og Þjórsárver

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:42:11 (1162)

2002-11-07 10:42:11# 128. lþ. 25.91 fundur 229#B Norðlingaölduveita og Þjórsárver# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:42]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Landsvirkjun hefur lengi verið á rangri leið í þessu máli og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ástæða til þess að hæstv. ráðherra upplýsi hvort hún hafi reynt að hafa áhrif á Landsvirkjun hvað þetta varðar. Nóg úrræði voru til staðar til þess að skaffa raforku til álvers í Hvalfirði. Ég veit ekki til þess að Landsvirkjun hafi lagt áherslu á neitt annað en þetta mál til þess að leysa úr þeim vanda.

Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Voru þetta hlutirnir sem menn þurftu að leggja út í staðinn fyrir að fá samþykki fyrir fylginu við Kárahnjúkavirkjun? Var það það að á móti skyldu menn gangast undir það ok að styðja þetta mál?

Hæstv. ráðherra talar hér um að pólitískar skoðanir hafi hugsanlega ráðið einhverju. Þær hafa nú komið fram áður hvað þetta mál varðar. Ég veit ekki betur en að framsóknarmenn, ráðherrar ýmsir og fleiri úr þeim flokki, hafi lýst því yfir mjög skýrt að þeir væru á móti því að þarna yrði virkjað. En nú vænir hæstv. ráðherra menn um að pólitískar skoðanir séu á bak við það að þeir hafi eitthvað að athuga við þessa skýrslu. Mér finnst ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Er það þannig að Framsfl. hafi gengist undir okið og ætli að styðja þetta? Hefur landbrh. t.d. dregið þau orð sín til baka að ekki yrði skertur fermetri á þessu svæði? Hefur hæstv. umhvrh. dregið sín orð til baka þar sem hún talaði á sömu lund? Eru framsóknarmenn í algeru bandi hjá ríkisstjórninni? Er alveg sama hvað þeim er boðið upp á? Eru þeir tilbúnir til að gangast undir þetta ok?