Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:09:26 (1189)

2002-11-07 12:09:26# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:09]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja að ég átta mig ekki alveg á hvað fyrir hv. þm. vakir. Auðvitað er það svo bæði um ríkisstofnanir og stofnanir sveitarfélaga, hvort sem við erum að tala um skóla, sementsverksmiðju eða eitthvað annað, að einstaklingar og heimili eiga sína friðhelgi. Það er ekki hægt að spyrja um hvað eina.

Í örðu lagi er það svo að þau viðskipti sem fyrirtæki reka á almennum markaði eru bundin ákveðnum skuldbindingum og hafa ákveðinna hagsmuna að gæta eigi að vera hægt að reka þau áfram á markaði. Þannig er ekki hægt að galopna alla hluti og getur heldur ekki verið rétt. Kannski er hugsanlegt að maður sem staðið hefur fyrir rekstri, eins og hv. 3. þm. Akraness, skilji það. En þar sem ummæli hv. þm. voru svo óljós er erfitt að átta sig á því hvað fyrir honum vakir.

Ég hygg að það sé ljóst hvað fyrir umboðsmanni Alþingis vakir. Hann vekur athygli á því að hægt sé með stjórnsýslulegum hætti að ná fram upplýsingum hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga. Einnig er auðvitað hægt á Alþingi að bera fram fyrirspurn til þess ráðherra sem með málið fer liggi hv. þingmönnum á hjarta að fá fram upplýsingar. Um það gilda almennur reglur sem hafa margsinnis verið skýrðar á Alþingi og einstakir alþingismenn hafa ekki flutt frumvörp hér til þess að hnekkja þeim.