Verðmætaaukning sjávarfangs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 13:38:43 (1205)

2002-11-07 13:38:43# 128. lþ. 25.94 fundur 232#B verðmætaaukning sjávarfangs# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir jákvæð orð í garð skýrslunnar og fyrir að vekja máls á henni hér á Alþingi.

Ég hef heyrt hér í salnum undir umræðunni að skýrslan hafi ekki verið aðgengileg á netinu. Ég veit hins vegar ekki betur en að hún hafi verið sett á netið sama dag og hún var kynnt á blaðamannafundi. Hún fékk mjög góða kynningu í fjölmiðlum og hefur síðan verið efni í umræðum þar sem ég hef kynnt hana á öðrum vettvangi. Ég held að það sé á engan hátt hægt að halda því fram að ég hafi verið að leyna skýrslunni enda tel ég mig ekki hafa neina ástæðu til að gera það, þvert á móti.

Ég tel að þeir möguleikar sem í þessu felast og koma fram í skýrslunni séu mjög miklir. Um hversu fljótt okkur tekst að ná því marki sem menn þar setja og hvenær einstakir þættir geta orðið að veruleika er miklu erfiðara um að segja. Ég held hins vegar að það sé kolröng ályktun sem hv. málshefjandi dregur af skýrslunni, að vegna fiskveiðistjórnarkerfisins hafi verðmætaaukningin ekki orðið á síðustu 10 árum. Ég held að ástæðan fyrir því að ekki hefur orðið verðmætaaukning í þeim anda sem um ræðir í skýrslunni sé sú að pólitíkin og hið opinbera hefur eytt mestu af púðri sínu í pólitískar deilur um stjórnkerfi sjávarútvegsins. Menn hafa rætt fyrningar og það að leggja gjald á atvinnugreinina sem ég held, þegar við bara horfum til baka, að hafi í heildina verið mjög neikvæð umræða fyrir sjávarútveginn, hrakið greinina í ákveðna vörn og jafnvel orðið til þess að áhugi ungs fólks og annarra á greininni hafi orðið minni en ella hefði getað orðið.

Í öðru lagi höfum við gengið í gegnum ákveðna erfiðleika varðandi stofnstærðarmat. Í tvígang hefur þurft að skera aflaheimildir verulega niður. Greinin hefur þurft að verja miklum tíma í að bregðast við slíkum breytingum og hagræða til þess að mæta því sem þar hefur verið að gerast. Ég held að við höfum ekki skipað sjávarútveginum þann sess í menntakerfinu sem hann á skilið þó að það hafi vissulega batnað á síðustu árum. Það skilar sér hins vegar ekki nema á löngum tíma og jafnframt höfum við ekki lagt nægilega mikið í rannsóknir. En það er eins með rannsóknirnar, það tekur tíma fyrir þær að skila sér í einhverju sem skiptir verulegu máli.

Við megum heldur ekki gleyma að stór hluti þess sem skýrslan fjallar um er fiskeldi og verður að segjast að þar gengu hlutirnir ekki eins vel upp og við gerðum okkur vonir um, sérstaklega á þarsíðasta áratug. Þar áttu nokkrir okkar þingmanna hlut að máli. Við lögðum okkar að mörkum til að eldið gæti skilað okkur tekjum, en því miður voru aðstæður hér á landi þannig að það gekk ekki. (Gripið fram í.) Það kemur aftur. Við skulum vona, hv. þm., að við fáum aftur tækifæri til að sanna okkur í þeim geira.

Ég vil nefna annað sem fjallað er sérstaklega um í skýrslunni, þ.e. líftæknina. Þó að líftækni sé ekki nýtt fyrirbrigði og engin sérstök atvinnugrein, heldur aðferðafræði sem notuð er í fjölda atvinnugreina, hafa orðið mjög miklar framfarir á síðustu árum í líftækninni. Nú er verið að beita henni í sjávarútveginum. Það hefur hins vegar ekki verið mögulegt fyrr en á allra síðustu árum og missirum að beita þeirri tækni sem verið er að fjalla um hér. Hér er annars vegar um það að ræða sem við erum að reyna að ná aftur tökum á nýjum forsendum, þ.e. þá eldi sjávarfiska, og hins vegar aðrir möguleikar eins og í líftækni.

Ég geri mér miklar vonir um að þetta verkefni fái brautargengi og hef því ætlað mér tiltölulega skamman tíma til þess að vinna úr þessari skýrslu, alla vega í fyrstu umferð. Síðan verður framtíðin að leiða það í ljós hversu vel fjárveitingavaldið tekur á þessum hugmyndum og hvernig okkur tekst að fá fjármuni, í samkeppni við önnur verkefni í þjóðfélaginu, til að setja í þennan farveg. Þá munum við ná þeim mikla árangri sem ég er sannfærður um að við getum náð á þessum vettvangi. Ég get þó ekki sagt nákvæmlega til um hvaða tíma það muni taka.