Afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 14:30:05 (1225)

2002-11-07 14:30:05# 128. lþ. 25.95 fundur 233#B afdrif listaverka í Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Listaverkakaup fyrirtækja og stofnana eru afar jákvæð. Það er afar jákvætt að þessar stofnanir skuli kaupa listaverk af listamönnum þeim til styrktar og styrkja um leið listasögu Íslands sem er til þess að gera mjög ung. Mér finnst full ástæða til þess að þakka hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni fyrir að vekja máls á þessu. Það kom fram á forsíðu Morgunblaðsins sl. þriðjudag í viðtali við þingmanninn.

Listaverkasöfn bankanna hafa að geyma, eins og fram hefur komið, mjög marga dýrgripi úr íslenskri listasögu. Við höfum svo sem ekki notið þess að sjá mörg af þessum listaverkum, þó hefur um árabil verið listaverkagluggi í Búnaðarbankanum þar sem við höfum getað skoðað listaverkin. Annars hafa þau svo sem ekki verið almenningi til sýnis en gildi verkanna felst vitaskuld í að við getum fengið að skoða þau.

Það kom fram áðan að í gegnum tíðina hafi verið lagðir niður ýmsir skólar. Ég hef vakið máls á því einmitt á Alþingi að t.d. í húsmæðraskólunum, sem voru lagðir niður á áttunda áratugnum, var gríðarlega mikið af listaverkum, ýmiss konar málverkum, ýmiss konar hannyrðum og þess háttar, og við höfum ekki passað nægilega vel upp á að geyma og varðveita þessa menningu. Sumt af þessum listaverkum veit enginn hvar liggur.

Það er gamalt máltæki sem segir að það skuli byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í, og þegar verið er að leggja niður stofnanir, selja þær og þess háttar, þar sem um menningarsögu er að ræða verðum við að gæta þess að varðveita hana.