Virðisaukaskattur af barnafatnaði

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 16:12:13 (1246)

2002-11-07 16:12:13# 128. lþ. 25.11 fundur 311. mál: #A virðisaukaskattur af barnafatnaði# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[16:12]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er lögð fram þáltill. um virðisaukaskatt á barnafötum. Það er ekkert óeðlilegt að slík þáltill. komi fram vegna þess að barnafólk á Íslandi mætti hafa það betra margt hvert. Þess vegna er gott að slík tillaga komi fram. Hún vekur okkur til umhugsunar um það að fatnaður á börn er mjög dýr. Góð barnaföt eru að minni hyggju allt of dýr hér á landi, því það eru náttúrlega til góð föt sem eru þægileg fyrir börnin, kuldafatnaður o.fl., en slík föt eru oft miklu dýrari en lakari föt sem eru meira úr gerviefnum og ekki eins góð og heilsusamleg, ef svo má að orði komast, herra forseti.

Ef foreldrar sem hafa ekki mikil fjárráð og eru, eins og hv. þm. nefndi, kannski í námi og í ýmsu basli, ef þeir eru mjög blankir þá þurfa þeir að kaupa lakari föt á börnin sín og ekki eins góð. En það skiptir miklu máli í veðráttunni hér, þar sem oft er rigning og suddi og kuldi og náttúrlega á veturna, að börnin séu vel búin og eigi góð föt. En til þess að hægt sé að kaupa góð föt á börn, þá þurfa náttúrlega að vera til peningar. Og ekki er það verra að fötin séu þá ódýrari.

Reyndar á þetta um fatnaðinn náttúrlega líka við um flest fólk, en maður vill frekar horfa á börnin, því þau eru varnarlaus í þessum efnum. Ég tek heils hugar undir ræðu hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur áðan um það hvernig búið er að barnafólki og að barnabæturnar eru allt of lágar og tekjutengingin hefst allt of neðarlega. Að þessu þarf að hyggja. Við jafnaðarmenn hér á Alþingi Íslendinga höfum einmitt vakið máls á þessu. En því miður er ekki tekið nógu mikið mark á því.

Þrátt fyrir, herra forseti, að afkoma ríkissjóðs sé mjög góð og töluvert mikið af peningum til í sjóðnum og menn séu ánægðir með ríkisreikningana, þá er samt ekki tekið tillit til þess. Þetta eru atriði sem koma upp í hugann. Og ég þakka hv. þm. fyrir að koma fram með þessa þáltill.