Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:20:58 (1268)

2002-11-11 17:20:58# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin, að svo miklu leyti sem þau voru við mínum spurningum. Það er skaði að hæstv. ráðherra geti ekki upplýst okkur um skattapólitík ríkisstjórnarinnar og þess þá meiri að engir framsóknarmenn eru hér til staðar til að svara um vilja þess flokks, hvort það er eitthvert þegjandi samþykki við því að hátekjuskatturinn falli niður eftir þessa eins árs framlengingu.

Orðaskipti okkar við hæstv. fjmrh., mín og fleiri þingmanna bæði nú og eins í umræðum utan dagskrár um daginn, sýna hvernig hægt er að nálgast sama hlutinn á tvo ólíka vegu. Það jaðrar við að hæstv. ráðherra geri okkur upp þær skoðanir, t.d. mér og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að við séum á móti því að laun lágtekjufólks hækki vegna þess að það geti lent í því að borga skatta. Er það nú mjög merkilegur málflutningur eða uppbyggilegur? Er það trúlegt að við hötumst sérstaklega við það að fólk hækki úr 65 í 90 þús. kr. á mánuði í launum eða bótum? Nei, það er ekki tilfellið.

Það sem okkur finnst tilfinnanlegt er sú staðreynd að skatturinn byrjar á hlutfallslega lægri launum. Gallinn er sá að ef menn t.d. hækka úr tæpum 90 þús. kr. á mánuði, sem geta orðið hæstu bætur öryrkja sem býr einn, og hann borgar nú þegar milli 4 og 5 þús. kr. af í skatta, að ef þessar bætur yrðu hækkaðar úr 90 í 120 þús. kr. mundu menn væntanlega una því betur að borga einhvern skatt af því. En þær eru bara ekki hækkaðar í 120 þús. Þær eru bara tæplega 90. Það er líka athyglisvert, og við þurfum að hafa það í huga, að ef laun einstaklings hækka úr 80 í 100 þús. kr. þá borgar hann hlutfallslega jafnmikið af þeirri viðbót og annar maður, sem hækkar úr 800 þús. kr. í 1 millj. borgar af sinni viðbót. Spurningin er hvort þetta sé eins og það á að vera. Nú vill einmitt hæstv. fjmrh. afnema álagið á hæstu tekjurnar. Það er afar lýsandi fyrir þau viðhorf í skattamálum sem hann og flokkur hans stendur fyrir.