Samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 13:43:07 (1291)

2002-11-12 13:43:07# 128. lþ. 27.91 fundur 234#B samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnst það vera dálítið fljótfærnislegt, ég get ekki að því gert, að þó að hv. þm. heyri fréttir núna í fréttatíma útvarpsins í hádeginu þá séu þeir komnir hér upp í ræðustól til að lýsa sérstakri ánægju með það, væntanlega, að lögin um gagnagrunn á heilbrigðissviði gangi ekki upp. (Gripið fram í.) Fullyrt var og sagt að það hefði verið staðfest að þessi lög stæðust ekki samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum eða siðareglum og það var strax farið að tala um að breyta lögum. Auðvitað er þetta eitt af þeim málum sem þarf að fara yfir í heilbr.- og trn. til þess að átta sig á hvað þarna er á ferðinni. Ég sagði áðan að þetta væri spurning um túlkun og ég er þeirrar skoðunar að þarna sé ekkert óeðlilegt á ferðinni og að lögin standi eftir sem áður. Þetta er það sem ég tel að sé hið raunverulega, en auðvitað þarf að fara yfir það í hv. heilbr.- og trn. og væntanlega verður það gert. En það var svo augljóst hvað hv. þm. Ögmundur Jónasson taldi að hann væri með pálmann í höndunum og lögin stæðust ekki.