Verndun hafs og stranda

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 14:31:35 (1296)

2002-11-12 14:31:35# 128. lþ. 27.6 fundur 240. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem spunnist hafa vegna frv. um verndun hafs og stranda. Þeir sem tekið hafa til máls hafa rætt frekar hlýlega um frv. og telja það vera til bóta og það sé meira að segja tiltölulega vel unnið. Það er rétt að við fengum umsagnir eftir að við lögðum það fram á síðasta þingi og höfum reynt að taka tillit til þeirra.

Hér hefur verið komið inn á það ákvæði sem verið er að setja nýtt inn í löggjöf, þ.e. umhverfisábyrgð. Ég tel það vera mjög mikilvægt atriði og tel að við munum í framtíðinni sjá slíkum ákvæðum beitt í ríkari mæli en nú er og það verði framtíðin.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson minntist á að taka þyrfti til gagnvart ýmsum þáttum er snúa að eftirliti, tók sem dæmi að nokkrir ráðherrar, allt að fjórir ráðherrar gætu tengst ákveðinni starfsemi t.d. inni í firði. Ég hef ekki séð neina sérstaka annmarka á því fyrirkomulagi sem við höfum í dag en það er rétt að nokkrir ráðherrar koma þar að málum. Sumum hefur fundist ankannalegt að landbrh. fari með ýmis leyfi er snúa að laxeldi en sjútvrh. leyfi sem snúa að þorskeldi og vissulega getur komið til einhverra árekstra ef menn eru að setja niður laxeldi og þorskeldi á sömu svæðum þannig að firðir beri ekki meir, þá gætu annmarkar komið í ljós.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á fjölmörg atriði sem mig langaði aðeins að bregðast við, m.a. kom hann inn á svokallaðan POPs-samning eða samninginn um þrávirk lífræn efni. Ágætt er að rifja það upp að Ísland var það ríki sem fyrst nefndi það á alþjóðavettvangi, á Ríó-ráðstefnunni 1992, að æskilegt væri að þjóðir heims mundu sameinast um alþjóðasamning gegn losun og notkun á þrávirkum lífrænum efnum, þeim efnum sem fara í hafið og safnast upp á norðlægum slóðum. Nýlega er búið að undirskrifa slíkan alþjóðasamning í Stokkhólmi, svokallaðan Stokkhólmssamning sem Íslendingar áttu mikið frumkvæði að að koma á bæði í upphafi og síðan með vinnu allan tímann. Talið er að sá samningur gæti tekið gildi á alþjóðavísu árið 2004. Vonandi verður það fyrr en við höfum fullgilt hann á Íslandi.

Einnig var minnst á mengun frá landstöðvum en um 80% mengunar hafsins koma frá landstöðvum og þess vegna eiga ríki heims að gera áætlanir um það hvernig eigi að bregðast við slíkri mengun og mig langaði að nefna það af þessu tilefni að Kanada og Ísland eru þau tvö ríki sem hafa gert framkvæmdaáætlun innan lands um varnir gegn mengun frá landstöðvum þannig að maður er auðvitað mjög ánægður með að Ísland skuli vera þarna eitt af þeim ríkjum sem eru í fararbroddi gagnvart vörnum gegn mengun sjávar. Ég veit til þess að fjölmörg þróunarríki eru að skoða núna íslensku framkvæmdaáætlunina og munu nota hana til leiðbeiningar við gerð sinna framkvæmdaáætlana.

Einnig var minnst á Sellafield og það væri kannski ágætt að fara nokkrum orðum um Sellafield en í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar kom fram, sem rétt er, að sú er hér stendur átti þess kost að fara að heimsækja þá verskmiðju fyrir stuttu, í síðustu viku. Það verður að segjast eins og er að starfsemin þar er allt öðruvísi en ég hafði gert mér grein fyrir. Ég taldi að þarna væru 1--2 verksmiðjur eða eitthvað slíkt en þarna eru fjölmargar verksmiðjur, geysilega umfangsmikið svæði og mun meiri starfsemi en ég átti von á. Þar vinna t.d. 11 þúsund manns innan girðingar, bara á svæðinu sjálfu á vöktum. Þessi starfsemi er í gangi alla daga ársins allan sólarhringinn, alltaf. Ég átti þess kost að ræða við yfirmenn stöðvarinnar og miðað við þær upplýsingar sem ég fékk þar, þá finnst mér mjög ólíklegt að bresk stjórnvöld muni gera það sem við Íslendingar höfum talið vera réttast í þessu, þ.e. að takmarka losun á teknesíum-99 í hafið nú þegar, en Umhverfisstofnun Bretlands hefur lagt til við bresk stjórnvöld að þeir lækki ekki gildin, þau eru í 90 terabecquerel í dag, fyrr en eftir 2006. Við höfum viljað að þeir lækkuðu þau strax en þeir geta það ekki nema þá að hætta þeirri starfsemi sem fer fram í hluta af Sellafield, svokallaðri magnovs-vinnslu, en þá þurfa þeir að geyma efnin á landi og breska umhverfisstofnunin skilst mér telur að það sé verra umhverfislega séð og hættulegra að geyma efnin á landi en vinna þau og þurfa að kasta þarna hluta af teknesíum út í sjó. Maður er svo sem ekkert ánægður með slíka stöðu en þó verður að telja þeim það til tekna að þeir hafa verið að takmarka ýmis efni sem hafa farið í sjó áður fyrr en við höfum viljað sjá þá gera betur.

Hv. þm. spurði um hlutverk Landhelgisgæslunnar, hvort hún væri vel í stakk búin til þess að takast á við þetta hlutverk að hafa eftirlit með mengun á sjó. Það kemur fram í kostnaðarmatinu að ekki sé gert ráð fyrir auknum kostnaði af þessu og gerðir verði samningar milli Umhverfisstofnunar og Landhelgisgæslunnar um að Landhelgisgæslan sinni eftirlitinu samhliða öðru eftirliti og ekki er reiknað með auknum kostnaði. Því er til að svara að talið er að Landhelgisgæslan geti annast þetta, hafi svigrúm til þess og ekki er a.m.k. í fyrsta kasti gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna þessa. En þó er auðvitað ómögulegt að vita hvernig mál þróast en miðað við undirbúningsvinnuna að þessu frv. er ekki ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði hjá Landhelgisgæslunni.

Einnig var spurt um flutningaleiðir á geislavirkum efnum, hvort slíkt yrði leyft o.s.frv. en það kemur fram í 20 gr. frv. að samgrh. er heimilt að setja reglugerð í samráði við umhvrh., dómsmrh. og sjútvrh. um siglingu skipa innan mengunarlögsögu Íslands sem flytja olíu eða hættulegan varning. Það er alveg öruggt að allir telja að geislavirkur úrgangur teljist hættulegur varningur í farrými og tönkum þannig að það kemur alveg fram að samgrh. getur sett reglugerð sem takmarki slíka flutninga. Það er ekkert sem bendir til þess núna á þessari stundu að líklegt sé að menn fari að flytja geislavirkan úrgang en þó ber að halda því til haga að heimurinn er að kjarnorkuvæðast má segja. Aukinn þrýstingur er á kjarnorku víða í heiminum. Svíar hafa ekki náð að loka Barsebæk með þeim hraða sem þeir áætluðu af því að þeir hafa ekki aðra orkukosti sem þeir telja nógu ábyggilega til að þeir geti gripið til þeirra núna. Finnar eru að byggja nýtt kjarnorkuver, þriðja kjarnorkuverið sitt sem varð til þess að þáv. umhvrh. sagði af sér. Bretar búa við kjarnorku og margir telja að þeir muni þurfa að nota hana í auknum mæli á næstunni. Japanir áætla að byggja fjölmörg kjarnorkuver á næstunnni og það er vegna þess að heimurinn kallar á orku. Menn hafa ekki nógu góða kosti gagnvart endurnýjanlegri orku, sumir telja hana of dýra og það er ekki mikil stemning fyrir því á alþjóðavettvangi að fara að stórauka notkun á kolum og olíu út af Kyoto-bókuninni. Það er því mikill þrýstingur á kjarnorku um þessar mundir.

Rússar samþykktu fyrir ekki mjög löngu síðan í Dúmunni að opna fyrir innflutning á geislavirkum úrgangi frá öðrum ríkjum. Það olli mér nokkrum heilabrotum og hvort menn mundu þá fara að nýta sér þá opnun til að senda hugsanlega geislavirkan úrgang í Norður-Rússland, en það er ekkert sem bendir til þess á núverandi stundu að menn fari að flytja geislavirkan úrgang hingað í nálægð við okkur en við mundum að sjálfsögðu taka mjög illa í slíkt vegna hagsmuna okkar.

Hv. þm. spurði líka um ábyrgð á mengun á ströndum. Ekki er sérstaklega tekið á því með þeirri bótatillögu sem gert er ráð fyrir í frv. Hún nær ekki yfir það en það er þannig að landeigendur og sveitarfélög hafa reynt að passa upp á strandsvæðin sem liggja innan þeirra svæða og það verður áfram í þeim farvegi en síðan hafa opinberir aðilar komið að ýmsum átökum sem menn hafa gert til að hreinsa upp strendurnar og umhvrn. hefur styrkt í gegnum tíðina slík átök þar sem frjáls félagasamtök og aðrir slíkir aðilar hafa gengið um fjörur og tínt upp rusl en það er auðvitað alveg ótrúlega slæm hegðan þegar verið er að henda rusli í sjó af skipum t.d. En ég hef trú á því að slíkt fari minnkandi með almennri styrkingu á umhverfisvitund þeirra sem um höfin fara.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður og tel að þær hafi verið jákvæðar og að umhvn. geti byggt vinnu sína m.a. á þeim umræðum sem hér hafa farið fram.