Verndun hafs og stranda

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 15:00:36 (1308)

2002-11-12 15:00:36# 128. lþ. 27.6 fundur 240. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili þeirri skoðun sem hér hefur komið fram. En Bretar hafa sjálfir skoðað hvað skuli til bragðs taka og þeir telja betra að losa þessi efni til ársins 2006, en þá er kúfurinn búinn og þá fasast þetta út, heldur en að geyma þetta á landi og bíða eftir að betri tækni finnist sem við hefðum gjarnan viljað að þeir gerðu. Það er þeirra mat að hentugra sé fyrir þá að vinna þetta og losa þetta svona í þessum skömmtum til ársins 2006. Við erum ekki sammála þeim í því. En við erum sammála hér heima um okkar þrýsting.

En Bretar hafa skuldbundið sig samkvæmt OSPAR-samningnum að koma málum þannig fyrir að árið 2020 mælist geislamengun ekki yfir náttúrulegum viðmiðunarmörkum í hafinu. Það er því svo sem búið að setja endapunkt gagnvart þeim. En við hefðum viljað sjá þennan endapunkt miklu nær okkur í tíma og rúmi en 2020 og höfum verið að þrýsta á þá um það.