Meðhöndlun úrgangs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 15:32:07 (1314)

2002-11-12 15:32:07# 128. lþ. 27.7 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála því sem fram kom hér, það þarf grundvallarbreytingar til, það þarf alveg nýja hugsun. En ég tel að við séum að tileinka okkur hana hér í auknum mæli, m.a. með því að fólk áttar sig stöðugt betur á því hvað felst í sjálfbærri þróun og að ekki sé hægt að ná henni fram nema m.a. með því að minnka magn þess úrgangs sem fer til urðunar.

Ég tel að verkefnið Vistvernd í verki sem umhvrn. hefur styrkt fjárhagslega um nokkurt skeið sé í mjög góðum farvegi. Svo má ekki gleyma að verkefnið Staðardagskrá 21 í sveitarfélögunum hefur einnig áorkað mjög miklu.

Varðandi það að sveitarfélögin geri sér kannski ekki grein fyrir því hvað hér er á ferðinni eða sé á döfinni tel ég að þau geri sér þokkalega vel grein fyrir því. Ráðuneytið reyndi að hafa mjög mikið samráð við sveitarfélögin við undirbúning þessa frv. Sérstök nefnd samdi frv. og í henni sat m.a. Sigurður Óli Kolbeinsson, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Með nefndinni vann einnig Jón Jónsson, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og nefndin fékk enn fremur til samráðs ýmsa aðila, þar á meðal Ögmund Einarsson, forstjóra Sorpu. Sveitarfélögunum er því fullkunnugt um frv. og framtíðarsýnina sem felst í því. Þau hefðu hins vegar auðvitað viljað að við hefðum getað reiknað kostnaðaráhrifin betur út. Við teljum afar erfitt að gera það vegna þeirra skýringa sem komu fram áðan í umræðunum.