Úrvinnslugjald

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 15:52:33 (1318)

2002-11-12 15:52:33# 128. lþ. 27.8 fundur 337. mál: #A úrvinnslugjald# frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið um þetta frv. sem er, eins og fram hefur komið, afar flókið tæknilega. Ég geri mér grein fyrir því að umhvn. þarf að átta sig á þessum flækjum og mun örugglega talsverð vinna felast í því. Hins vegar verður að hafa í huga að frv. er endurflutt þannig að það hefur komið fyrir augu þingmanna áður. Umhvn. ætti því að hafa gert sér ágæta grein fyrir því út á hvað það gengur. Frumvarpið er aftur á móti breytt eins og fram kom í fyrri ræðu minni að því leyti að það verður ekki nefnd sem heldur utan um þetta, heldur svokallaður Úrvinnslusjóður sem er ríkisstofnun. Það á líka að fastnegla upp á hár upphæðirnar samkvæmt lögum í viðaukum en ekki að gera það eins og við höfðum áætlað á fyrra stigi, að tilgreina hámarksupphæð og síðan væru gefnar út reglugerðir um upphæðina. Það var ekki talið hægt að standa þannig að því.

Almennt má segja um þetta frv., af því að það er ansi flókið og erfitt að segja eitthvað um það í fáum orðum, þá gengur það út á að ná ákveðnum tölusettum og tímasettum markmiðum varðandi endurnýtingu og endurnotkun á fjölmörgum þáttum sem leynast í okkar ranni, þar á meðal samsettum pappaumbúðum og hjólbörðum, ökutækjum og ýmsum slíkum vörum, t.d. heyrúlluplasti svo eitthvað sé týnt til.

Þá kemur vandinn: Hvernig á að ná þessum markmiðum? Ein hugmyndin sem rædd var og menn hafa sums staðar farið erlendis er að markaðurinn geri einhvers konar samkomulag sín á milli um að ná þessum tölu- og tímasettu markmiðum, þannig að markaðurinn bara sjái um það sjálfur og semji sín á milli um að ná árangri. Þetta var leið sem við töldum ekki eiga að fara hér á landi, m.a. vegna þess að hluti af atvinnulífinu taldi að þá yrðu margir utan við kerfið, yrðu svokallaðir ,,free-riders`` og tækju ekki taka þátt í því. Þeir væru bara lausbeislaðir á meðan aðrir öxluðu ábyrgðina og mundu standa undir því að ná markmiðum. Þess vegna var ákveðið að setja upp annað heildstætt kerfi þar sem eitt yrði látið yfir alla ganga. Leiðin er sú að setja á þetta úrvinnslugjald á hverja vöru á kíló eða hvert stykki, eftir því hvernig best er að skilgreina það, í tolli þegar menn flytja viðkomandi vöru inn í umbúðum sem við viljum minnka eða í framleiðslu þegar menn framleiða vörur á markaði sem innihalda ruslumbúðir utan um vörur sem við viljum líka minnka. Gjaldið þarf að leggjast á einingarnar þar.

Þegar menn taka svona gjald af innfluttum vörum í tollinum safnast fyrir gífurlegir fjármunir sem verða aðaluppistaðan, a.m.k. ein uppistaðan í þessum Úrvinnslusjóði. Því verða háar upphæðir í þessum sjóði, en sjóðurinn á svo að standa undir því að ná markmiðunum í endurnýtingu og endurnotkun á viðkomandi vöruflokkum og úrgangsflokkum.

Tölurnar sem menn styðjast við núna eru þær tölur sem við komumst næst miðað við sérfræðiþekkingu okkar á því hvaða endurnotkun er líkleg til að eiga sér stað og hvað kostar að innheimta úrgang sem við ætlum að endurnýta og endurnota. Þessar tölur munu auðvitað breytast í framtíðinni eftir því hvernig markaðurinn bregst við, hvaða fyrirtæki bjóða í að endurnota og endurnýta þessa úrgangsflokka og hvernig þeim tekst að halda á þeim málum. Það mun breytast. Hér verða flutt frv. í framtíðinni um breytingar á þessum krónu- og auratölum sem við sjáum, mjög nákvæmlega skilgreint í viðaukum. Það verður mjög spennandi, bæði fyrir sveitarfélög, atvinnulíf og okkur í umhvrn. að takast á við þetta verkefni.

Þetta er gífurlega stórt og flókið mál. Við höfum enga sérstaka fyrirmynd svona gjalds innan lands í dag. Við erum að fikra okkur áfram með þessa hugmyndafræði. Eina fyrirmyndin sem við höfum er spilliefnagjaldið. Það hefur tekist mjög vel til þar, en þetta er talsvert flóknara en þeir vöruflokkar sem spilliefnagjaldið hefur verið lagt á.

Ég sé fyrir mér að í framtíðinni þá verði talsverð atvinnustarfsemi í kringum að endurflokka, endurvinna og endurnýta flokkað sorp. Atvinnulífið verður mjög ráðandi í þessum málum. Þeir eru með sína fulltrúa í stjórninni og verða mjög leiðandi. Það er auðvitað krafa frá atvinnulífinu að vera leiðandi í þessu því annars telur atvinnulífið hættu á að ríkið fari að leggja aukagjald á úrgangsflokkana sem gæti hugsanlega orðið einhvers konar dulbúin skattheimta. Það er hins vegar alls ekki hugsunin á bak við þetta frv., einungis að innheimta raungjald sem stendur undir því að ná markmiðum við endurnýtingu og endurflokkun á sorpi.

Hv. þm. Þuríður Backman kom inn á hvaða áhrif þetta gæti haft á verðlag, m.a. á mjólkurvörum.

Það er ljóst að þetta mun að einhverju leyti hafa áhrif á vöruverð. Verið er að leggja aukakostnað sem í dag er ekki lagður á með beinum hætti á vörur í innflutningi og vörur í framleiðslu. Það er nú búið að reikna allt saman út eftir bestu getu. Í gögnum kemur fram að t.d. mjólkurlítrinn hækkar, við hækkun á vöruverði vegna umbúða og skilagjalds, vegna þessa umbúðagjalds um 0,8%. Þetta er því óveruleg hækkun. Hugsanlega munu þessar tölur eitthvað breytast í framtíðinni miðað við hvaða árangri menn ná við að endurnýta og endurnota umbúðir o.fl.

Hér var einnig spurt um almenna fræðslu til sveitarfélaga og aðila varðandi flokkun á sorpi. Það hefur verið mjög mikil fræðsla af hendi umhvrn. í gegnum tíðina um flokkun á sorpi hjá sveitarfélögunum og þeim aðilum sem nú sýsla með sorp. Ég t.d. hef tekið eftir því að Sorpa hefur verið mjög öflug í kynningu á þeim möguleikum sem fólk hefur á að flokka sorp, sem eru miklu meiri en menn almennt telja. Það er hægt að flokka nánast allt sorp í dag og koma því í eðlilegar rásir. Þannig er flokkun sorpsins eðlilega gagnvart okkar umhverfismálum. Í framtíðinni munum við auðvitað áfram standa að fræðslu eins og við höfum gert. Ég tel þannig að þeim málum sé vel fyrir komið.

Virðulegur forseti. Ég vil enn á ný þakka fyrir þessar umræður. Ég tel að þetta mál sé mjög til fyrirmyndar og geti jafnvel orðið öðrum ríkjum til fyrirmyndar. Þetta er heildstætt kerfi, hugsað frá grunni og tekur á öllum þáttum þar sem atvinnulífið verður ráðandi. Ég er því mjög ánægð með hvernig þetta frv. hefur þróast.